Færsluflokkur: Ferðalög

Jólin koma

Ef lesendur hafa tekið eftir að það er komið nokkur tími síðan síðast var settur inn pistill þá upplýsist það hér með að það er bara af einskærri tillitssemi við lesendur þar sem síðasta færsla var svo löng að gera mátti ráð fyrir nokkrum vikum til að melta hana. En það þýðir ekki að við séum hætta að skrifa. Það sem við helst höfum afrekað fyrir utan að vera byrjuð að skrifa nýja færslu er að við erum búin með fyrsta jólakortið sem fer til hjónanna sem lánuðu okkur húsið sitt í Santa Cruz í Kaliforníu, en þar bjuggum við endurgjaldslaust í þrjár vikur. Jólakortið á að fylgja pakka til barnanna þeirra. Reyndar var síðast öruggi dagurinn til að senda pakka utan Evrópu á föstudaginn þannig að við erum orðin of sein eins og alltaf. Það er búið að taka tímann að velja í pakkann því stóð að gefa þeim handprjónaða ullarsokka en við erum  búin að endaþeytast um allt og það virðist enginn vera að selja svona sokka í réttum stærðum. Afhverju gat okkur ekki dottið í hug að gefa þeim eitthvað annað? Á endanum duttum við niður á handprjónaðar snotrar ullarhúfur sem við fundum á jólamarkaðinum í Kjós nú um helgina. Settum svo sýnishorn af íslensku sælgæti í pakkann. Annars erum við alveg staðráðin í að vera ekki of sein með jólakortin í ár það er bara spuring um hvar það endar því það þurfti heila rauðvínsflösku til að koma fyrsta jólakortinu á blað.

Ferðasaga frá Þýsku ölpunum júní 2007

Aðdragandinn
Við hjónin fáum stundum eða ansi of skyndihugmyndir og erum fljót að framkvæma þær sem við teljum góðar. Þannig var rokið til og keypt ferð til Þýskalands fyrir hópinn í júní sl (áður en við síðar ákváðum að skella okkur til USA). Það var legið á netinu í ansi mörg kvöld og helgar til að finna góða gistingu, hagkvæman farkost osfrv. Reyndar tók þessi skipulagning allt of mikinn tíma og við gáfumst upp á að reyna að leigja íbúð í Munchen. Planið er því að vera 5 nætur í Mittenwald, aðrar fimm í Bertesgarden og svo fjórar við Sleersee.

Ferðin til Þýskalands
Flugið til Þýskalands gekk vonum framar og Hugrún Gyða stóð sig vel og hafði gaman að. Miklu skipti að við gátum skipt um sæti, haft Hugrún Gyðu á milli okkar og hún gat fengið sér lúr.

Á flugvellinum fengum við afhenta BMW bifreið en fljótlega kom þó í ljós að aðeins ein barnakerra komst í skottið en ekki sá ferðatöskufjöldi sem hafði verið lofað á netinu. Sem betur fer var hægt að skipta og við fengum Hunday Santa Fe bifreið sem stóð undir væntingum.

Það tók smá tíma að komast út af flugvallarsvæðinu en það tókst á endanum þökk sé kortalesaranum Maríu. Það var komið myrkur þegar við komum til Mittenwald, fyrir hreina tilviljun spurðum við til vegar nákvæmlega þar sem við áttum að beyja af aðalveginum. Bóndinn kom skömmu síðar og vísaði okkur leiðina á hjólinu sínu og sendi okkur í rúmið með bjór og vatn.

Una Björg var svo spennt að hún reif sig á fætur fyrir allar aldir móður sinni til mikillar armmæðu enda svaf sú stutta eins og steinn og svefninn er dýrmætur þegar ekki er of mikið af honum. Prinsinn Eyvindur vaknaði passlega í nýbökuð brauð sem fjölskyldan sótti í næsta bakarí á hjólum sem við höfðum afnot af að vild.

Mittenwald er fjallaþorp í Ölpunum og í þeim enda bæjarins þar sem við bjuggum var nokkurra mínútna gangur til Austurríkis. Fjöllin eru mörg um 2300 metra há og eitt slíkt blasir við út um svefnherbergisgluggann okkar. Áin Ísar sem er lítil jökulá rennur í gegnum bæinn og gefur honum skemmtilegan svip. Bærinn er frekar gamaldags og flest húsin eru byggð í hefðbundnum Landhaus stíl. Í bænum var allt fullt af ellilífeyrisþegum og ljóst að hinn vinnandi þjóðverji var ekki kominn í sumarfrí. Hugrún fékk náttúrlega talsverða athygli

Íbúðin okkar er á tveimur hæðum með ótrúlega íburðarmiklu baðherbergi miðað við annað í húsinu. Þar má nefna tveggja manna baðker, tveir vaskar með kopar blöndunartækjum, nuddsturtu og klósettsetu sem ekki skellist þegar henni er lokað.

Forsjál eiginkona mín hafði pantað burðarbakpoka af bestu gerð á netinu fyrir Hugrúnu Gyðu og var brunað til Garmisch Partenkirken að sækja hann. Fengum hellirigningu á leiðinni en veðrið lék annars við okkur.

Bóndinn stjanaði við krakkana. Una Björg fékk prufureiðtúr á Merlin, austurrískum Hofflander, sauð þrjóskum hesti sem hlýddi ekki hefðbundnum skipunum með sparki í kviðinn heldur þegar kallað var á hann. Börnin fengu svo nokkuð góðan reiðtúr um fallegt svæði skiptust á að sitja hestinn meðan við bóndinn fylgdum á hjóli.Bóndinn á eina geit einn asna og einn hest og þau fara saman í gönguferðir.

Bóndinn var nokkuð fróður um íslenska hestinn og vissi að hann hafði fimm gíra hann sagðist þó ekki hafa efni á slíkum því hann kosti 5000 evrur í Þýskalandi, meðan hægt er að fá þann austurríska á nánast ekki neitt.

Frá Mittenwald fórum við í dagsferð til Wahlensee þar sem gengið var um í skóginum og börnin leigðu sér bát meðan við nutum þess að sjá Hugrúnu Gyðu njóta tilverunnar og skoða blóm og andarunga.

Við ákváðum að skipta liði í einn dag. Við Eyvindur fórum í fjallgöngu en stelpurnar í bíltúr og gönguferð. Við gengum  að Brunsteinhütte og fengum okkur vænan hádegisverð og keyptum göngukort. Þaðan gengum við í átt að tindinum sem gnæfir yfir húsinu okkar ekki var útlitið gott því þoka lá yfir fjallstindunum en það var freistandi að ná 2000 metra markinu sem GPS tækið mældi skilmerkilega. Það kom á daginn að í þann mund og því marki var náð hvarf þokan og við gengum í heiðskýru upp á hvern tindinn á fætur öðrum yfir fjallshryggi en leiðinni var heitið að kláfi við fjallið Karwendel. Við vorum reyndar vonlitlir um að ná kláfnum niður þar sem hann hættir að ganga snemma dags. Ferðin að Karwendel sóttist vel var ævintýralega erfið, ef ekki hefði verið fyrir góða stígagerð eða öllu heldur stigagerð hefði leiðin verið okkur með öllu ófær þar sem við trítluðum um á skjannahvítum strigaskónum. En stigar og stálvírar voru allstaðar þar sem þeirra var þörf og við komumst klakklaust að kláfnum. Þegar þangað kom var farið að rigna og komið kvöld. Ekki tókst okkur þó að finna stystu leið niður og þar varð úr að við tókum stíg sem liggur til baka að  Brunsteinhütte og reyndist það létt leið. Þau voru frekar sársaukafull sporin niður enda kapparnir í lítilli þjálfum. Þetta var þó góður dagur og erfiðisins virði.

Eftir fimm daga í Mittenwald var pakkað í bílinn og keyrt áleiðis til Bertesgaden en með ísstoppi í fallegu skíðaþorpi Sheefeld sem við María heimsóttum síðast þegar við vorum á ferð með Staðardagskrárfólki fyrir um fjórum árum. Þaðan var förinni heitið eftir hraðbraut sem liggur til Inspruck með viðkomu í kristalsafninu í Wattens þar sem kvenkynið fjárfesti í fallegum munum. Við gengum túristahringinn í gegnum Kristalwelten sem er nú kannski meira eins og listasafn þar sem kristall er notaður að miklum hluta.

Við vorum ekki svikin á útsýninu í íbúðinni okkar á Bertesgaden sem bar nafnið Panoramablik með rentu. Fjallahringurinn við Bertesgaden sást vel af svölunum helst að telja Kehlstein þar sem tehús Hitlers er á toppi. Fjöllin ofan við Köningsee eru líka stórbrotin og það væri auðvelt að týna sér í þeim í nokkra daga. Veðrið hefur kryddað útsýnið mikið og við fengum allt frá mjög góðu í ævintýralegt þrumuveður með stórbrotinni eldingasýningu. Eitthvað sem á minn mælikvarða slær norðurljósunum okkar alveg við þó ég vildi ekki skipta.

Ekki get ég sagt að hitinn fari vel í mig þannig verður minna úr hreyfingu en ætlað var. Við erum reyndar búin að labba mikið í skóginum og fórum í sund í ískaldri sundlaug sem Hugrún Gyða lét ekki bjóða sér, hún klóraði sig bara upp handlegginn á pabba sínum og fékkst ekki til að sýna sig neitt. Skokk og líkamsrækt sem var ofarlega í huga við skipulagningu ferðarinnar hefur hins vegar alveg setið á hakanum. Hjá mér og ekki hjálpaði að maría gaf líkamsræktartækjunum í kjallaranum ekki háa einkunn. Svo spilar kannski inní smá þreyta eftir fjallgöngu. Jæja þetta er kannski ekki svo slæmt. En ég kæmi örugglega engu í verk ef ég byggi í þessum hita.

Við aðkomuna að þjóðgarðinum í Bertesgaden blasir við Mac Donalds æ æ. Bílnum er lagt á bílastæði í nokkurri fjarlægð því umferð ökutækja er bönnuð í garðinum. Gengið er um göngugötu að Köningsee þar sem eru fornlegar verslanir á báða hendur, þær voru lokaðar þegar við vorum á ferð þarna 21. júní enda ekki margt um ferðamenn og ljóst að þjóðverjar eru ekki komnir í sumarfrí. Við gengum skemmtilegan en stuttan hring við Köningsee. Mikil leit var síðan gerð að ítölskum veitingarstað sem fannst fyrir rest í miðbæ Bertesgarden þar fékk sú minnsta Brusetta, Líklega er Hugrún Gyða með þeim yngri sem fengu rétt á veitingarstaðnum allavega vakti hún mikla athygli þjónsins.

Schliersee er fallegur bær. Dvöldum þar á heimili þar sem við fengum efri hæðina útaf fyrir okkur. Heimilishundurinn Herkúles vakti óskipta athygli þeirrar minnstu. Eyddum einum degi við vatnið Spitzingsee fórum upp með Taubensteinbahn og löbbuðum niður. Við vatnið vakti athygli okkar risastórt Cheraton hótel með svakalega flottum bílum fyrir framan. Þetta er mjög friðsæll staður og ekki ólíklega hvíldarstaður yfirstéttarinnar.

Fangabúðirnar í Dachau
Við heimsóttum Dachau fangabúðirnar fyrir norðan Munchen. Fyrir utan búðirnar eru myndir af því þegar amerískir hermenn frelsuðu fangana 1945. Við gengum inn í búðirnar þar sem kaldhæðisleg áletrun „arbeit macht frei" stendur á hliðinu. Í Dachau fóru ekki fram fjöldaútrýmingar þó þúsundir fanga hafi týnt lífi sínu þar. Í búðunum voru fangar notaðir sem tilraunadýr, kannað var þol þeirra í kulda, hvernig þeir þoldu þrýsting og einnig voru þeir smitaðir af malaríu. Fæstir lifðu tilraunirnar af. Margir fanganna frömdu sjálfmorð með því að hengja sig eða hlaupa á rafmagnsvír sem lá umhverfis búðirnar, en einnig voru fangar neyddir til þess að fremja sjálfsmorð eða drepnir og látið líta út fyrir að um sjálfsmorð væri að ræða. Í skála fyrir sérfanga hafði hver fangi sinn klefa, þar fóru fram viðbjóðslegar pyntingar og aftökur. Kl tvö að  nóttu var fangi í klefa nr. 1 vakinn og hinir fangarnir heyrðu þegar járnin duttu í gólfið. Fanginn var síðan dreginn út á plan og látinn standa fyrir framan vegg og skotinn. Fjöldamargir svefnskálar voru í búðunum. Í hverjum svefnskála voru vistaðir 500 fangar. Á hverjum degi fengu þeir klukkutíma til að taka til og þrífa skálann og var talað um djöfullegar kröfur sem gerðar voru til fanganna um snyrtimennsku, refsingar voru fyrir minnstu yfirsjón. Í byggingu fyrir utan búðirnar er gasklefi og brennsluofn sem tekinn var í notkun 1943 þar sem gamli brennsluofninn var hættur að hafa við. Talið er að 11.000 fangar hafi verið brenndir í gamla ofninum. Í nýja húsinu var sérstakt herbergi þar sem föt fanganna voru sótthreinsuð. Annað þar sem þeir afklæddust áður en þeir gengu í gasklefann, þar  bakvið var líkherbergi þar sem líkin biðu þess að verða send í ofninn. Annað líkherbergi var fyrir lík fanga sem voru flutt þangað úr búðunum. Eftir að amerískir hermenn hertóku búðirnar voru þær notaðar til að vista þýska stríðsglæpamenn. Settur var á fót herdómstóll og voru margir teknir af lífi með hengingu. Herdómstóllinn var síðar fyrirmynd af dómstól fyrir stríðsglæpamenn.

Þorsteinn


Flóttamannabúðir fyrir höfuðborgarbúa

Hvert eigum við að fara á gamlárskvöld spurði María mig í dag. Ég kom af fjöllum enda ekki beint ferðahugur í mér þessa daganna. Í kjölfarið fylgdi saga um vinafólk sem ætlar að flýja ástandið í höfuðborginni og dvelja í sumarhúsi um áramót. Í einni svipan rifjaðist upp flugeldamengunin síðustu áramót þegar ég sá ekki lengur götuljósin í götunni minni hvað þá flugeldanna.

Er þetta ekki orðið gott? Ég held að Ísland sé í hópi fárra landa sem leyfir svona gengdarlausa notkun á flugeldum, flugeldarnir innihalda mengandi efni og ástandið á gamlárskvöld veldur mörgum óþægindum og er heilsuspillandi. Fjöldi barna hefur hlotið varnalega örorku vegna meðferðar flugelda. Ruslið sem verður til á gamlárskvöld er jafnvel að fjúka til fram á sumar.

Ég tel kominn tíma til að stöðva sölu á flugeldum til almennings vegna almannahagsmuna. (Nú verð ég rekinn úr hjálparsveitinni minni). Flugeldar eru fallegir en þeir njóta sín ekki þegar kyrrt er veður og reykurinn af þeim nær að skyggja á dýrðina. Því er miklu nær að haldnar verði nokkrar veglegar flugeldasýningar víða um borgina. Það er búið að taka á brennumálum þannig að fyrirtæki og einstaklingar eru ekki að losa sig lengur við ískápa og spilliefni á brennur eins og áður var. Nú er komið að flugeldunum eða á maður að þurfa að flýja heimili sitt vegna mengunar. Það þætti ekki gott til afspurnar í þessu hreina landi.

Þorsteinn


Fæðingarorlofið hafið

Heimsóttum dagmömmur í Kópavogi í gær og vorum full bjartsýni að lífið yrði einfaldara. Það kom á daginn að þeim leist bara ekkert á barnið og við kvöddum með hraði. Þær vildu ekki barn með mjólkurofnæmi blessaðar konurnar í Löngubrekkunni. Öll börnin áttu að fá sama mat því það yrði svo erfitt fyrir barnið að fá eitthvað annað.

Við heimsóttum því næst tvær dagmæður í Mosfellsbæ sem okkur vel ljómandi vel á á. Önnur varð þó fyrir valinu og er sú staðsett skamt frá vinnunni minni. Þarna er góð útiaðstaða, nóg að dóti og hundur og köttur á heimilinu, eitthvað fyrir dýrakellinguna mína. Hugrún Gyða byrjar því í aðlögun á fimmtudaginn.

Annars var fyrsti dagurinn minn í raunverulegu fæðingarorlofi í dag því María fór í vinnuna. Það var afar notalegt að stússast með krílinu en ekki hægt að segja að ég hafi komið nokkru öðru í verk (setti þó í þvottavél en náði ekki að setja hana á stað). Við fórum reyndar saman með jeppan á verkstæði í bilanatékk því það ríkur svo miðið aftan úr honum þegar hann er kaldur síðan gert var við túrbinuna. Fengum okkur góðan göngutúr í rigningunni og rokinu á Geirsnesi. Ekki fundu þeir neitt út úr því hvað amar að bílnum og vildu halda honum til morguns. Því fengum við far heim með skutlunni; hundurinn, barnið og ég.

Um það leiti sem María kom úr vinnu var Hugrún Gyða kominn með 39 stiga hita og var hin slappasta.  Ekki byrjaði þetta vel, það er vonandi að hún sofi þetta úr sér.


Það eru sóknarfæri í hversdagsleikanum.

Jæja góðir landar ég get nú ekki sagt að við hjónin höfum skemmt okkur vel síðan við komum heim enda hafa nokkrir stressfaktorar gert okkur lífið leitt en það horfir nú allt til bóta. Ég geri mér vonir um að þakið sé hætt að leka en verktakar sem unnu fyrir okkur á sínum tíma höfðu gleymt að setja þéttilista með mæninum og kítta í nokkur naglagöt.

Við gerum okkur miklar vonir um að dagmömmumál okkar séu að leysast en í næstu viku ætti að liggja fyrir hvort sú dagmamma verður í Kópavogi, Reykjavík eða Mosfellsbæ. Þær sem við vorum búin að festa á Seltjarnarnesi eru sem sagt að hætta því að eru að koma próf. Þvílíkt ábyrgðarleysi.

María er búin að vera í mikilli flækju um hvort hún eigi að skipta um vinnu en tók þá ákvörðun að halda þeirri gömlu í 75% starfi og byrjar í næstu viku.

Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur eytt miklum tíma í að snúast i kringum sjálfan sig og sína og dagurinn endist ekki til þrátt fyrir að áhugamálin höfum við alveg sett á hilluna í bili. Ég hef það þó fyrir satt að heimavinnandi húsmóðir vinnur á við tvo störf á vinnumarkaði. Svo þið getið rétt ímyndað ykkur að við hjónin erum próduktíf um þessar mundir.

Ég skellti inn tveimur nýjum myndaalbúum í kvöld sem þarfnast skýringa. Virgenia City er bær í Nevada þar sem byggingar eru eins og þær voru um 1850 bæði að innan og utan. Þessi borg eða bær byggðist upp af gull og silfurnámamönnum og var um tíma ríkasta borg Bandríkjanna.

Við höfðum líka frétt að Wiskeylake við Wiskeytown væri mjög fallegt vatn. Við komumst síðan að því að vatnið er í raun og veru uppistöðulón. Við ókum að skilti sem stóð á Wiskey town en það vísaði á eitt uppistandandi hrörlegt hús restin að bænum er undir vatninu. Okkur var bent á að heimsækja kirkjugarðinn hann væri mjög spes því engar reglur gilda um hann. Best að láta myndirnar tala en ég get upplýst að ég varð mjög snortinn.

Þorsteinn

 


Heima er bezt

IMG_0472Það er ekki ónýtt að lenda á klakanum í svona miklu blíðskaparveðri og faðma landið að sér. Draga að sér frískandi loftið og finna orkuna streyma um líkamann sem er svo mögnuð að þó ég hefi misst úr svefn eina nótt líður mér eins og ég sé nývaknaður. Flugið gekk mjög vel og tók fljótt af. Litli unginn svaf mestann hluta ferðarinnar en vildi þó ekki taka annað í mál en að mamma héldi á sér megnið af leiðinni. Hugsa sér fimm tímar og maður er kominn heim. Það er alltaf jafn skrítið.

Það er verulega gaman að fylgjast með Hugrúnu Gyðu skoða nýja (gamla) dótið sitt og hún hefur í nógu að snúast að rifja upp gömul kynni við húsið og dýrin. Við höfum það sterklega á tilfinningunni að hún átti sig á því að hún sé kominn heim. Tímamunurinn gerir það að verkum að hún ætlar að sofa til hádegis og ekki ónýtt að fá smá frí í fæðingarorlofinu.

Svo viðrumst við ætla að hafa nóg að gera á næstunni, nágrannakonan okkar sem ætlaði að passa fyrir okkur þurfti að fara til Mexikó þar sem pabbi hennar er alvarlega veikur. Uppþvottavélin tekur ekki sápuna. María er búin að fá tilboð um nýja vinnu og þakið lekur. Halló hversdagsleiki langt síðan við höfum hist. Ég ætla nú samt bara að anda djúp og njóta þess að vera í fæðingarorlofi því ég byrja ekki að vinna fyrr en 1. nóvember, best að vekja krílið og fara að gefa öndunum brauð.

Þorsteinn

 

  


Bless Eugene, halló Boston

Við höfðum í nógu að snúast síðustu daganna í Eugene því það þurfti að skila af sér lánsdóti, kveðja nágrannana og ljúka við innkaup. Eins og við nefndum þá var haldið kveðjupartý  þar sem nágrannar okkar mættu hver með sinn réttinn og Camille sýndi listafallegar myndir frá Íslandi. Þetta fólk er frábært  Við kvöddum Eugene með söknuði en nágrannar okkar Beth, David, Camille og Jim fylgdu okkur út á flugvöll.

IMG_0904Ferðin til Boston gekk alveg ljómandi vel. Við vorum heppin og fengum sér sæti fyrir Hugrúnu Gyðu þannig að hún gat fengið smá útrás. Hún byrjaði á góðum lúr og fór síðan á kostum í flugvélinni þó hún hafi verið orðin frekar þreytt undir það síðasta. Við ákváðum að vera ekkert að eltast við alla túristastaðina hér heldur tókum því rólega enda hugmydin að verja tímanum hér meira í afslöppun fyrir lokaflugið. Við eyddum deginum á röltinu um höfnina og miðbæinn sem er mjög skemmtilegur með fallegum byggingum, þær eldri minna frekar á Evrópu en Bandaríkin. Satt best að segja vorum við alveg stórhrifin þrátt fyrir að háhýsin, flautandi bílstjórar og sírenur undirstrika að við erum komin í stórborg. Reyndar heimsótti slökkvilið borgarinnar götuna okkar og fyllti hana af bílum í kvöld en það var sem betur fer ekkert alvarlegt.

Annað kvöld leggjum við á stað til Íslands og bara að vona að litli ormurinn sofi megnið af leiðinni. Þar með líkur þessu þriggja mánaða ævintýri okkar sem er líklega skynsamlegasta og skemmtilegasta sem við höfum tekið okkur fyrir hendur lengi. 

Þar sem netsambandið er búið að vera leiðinlegt þá eigum við enn eftir að setja inn myndir sem koma næstu daga.

 


Bráðum heim

Þá erum við komin aftur til Eugene, komum í fyrrakvöld eftir afskaplega vel heppnað ferðalag til Kaliforníu og Nevada. Nú er líka aldeilis farið að styttast í ferðalagið heim til Íslands og erum við smám saman farin að undirbúa það - enda krefst það hellings undirbúnings að koma öllu heim og saman í ferðatöskunum. Í kvöld er kveðjupartý þar sem við munum hitta gömlu nágrannana okkar á Tigertail Rd. Svakalega skrítið að hugsa til þess að eftir 6 daga verðum við komin heim!

Það má segja að Hugrún Gyða sé ómeðvitað farin að undirbúa heimkomuna því þar sem við dveljum núna eru tveir heimilishundar. Hugrún Gyða var fljót að átta sig á því hvernig maður getur vingast við hunda, jú auðvitað með því að gefa þeim matinn sinn. Hún er ótrúlega hrifin af hundunum og vill helst vera hjá þeim öllum stundum. Lóa okkar á því von á góðu þegar við komum heim!

Við erum enn óheppin með netsamband og er það ástæðan fyrir stopulum bloggfærslum. Við erum núna stödd á almenningsbókasafninu í Eugene og vorum að bóka hótel í Boston á leiðinni heim. Við leggjum af stað þangað á fimmtudagsmorgun, förum þaðan á laugardagskvöld og komum til Íslands á sunnudagsmorgun. Það verður bæði með trega og tilhlökkun sem við kveðjum Eugene. Hér líður okkur mjög vel, fólkið hér er yndislegt og við höfum eignast góða vini sem við munum örugglega halda sambandi við. Á hinn bóginn saknar maður fjölskyldu sinnar og vina heima á Íslandi og það verður gaman að koma heim.

Meira fljótlega.... vonandi Cool

María


Granítklettar, risafurur og eyðimörk

Þessi færsla er skrifuð á móteli í höfuðborg Nevada ríkis, Carson City. Það er ótrúlegt hvað landslagið er ólíkt hér miðað við hvað við höfum séð í Kaliforníu, hér erum við í hálfgerðri eyðimörk. 

Síðustu þrjá daga höfum við ekið og gengið um þjóðgarðinn Yosemite. Það eru nokkrar milljónir manns sem heimsækja Yosemite á hverju ári og þess vegna er eiginlega nauðsynlegt  að panta gistingu með löngum fyrirvara. Við megum því teljast heppin að hafa fengið gistingu við mörk þjóðgarðsins með dags fyrirvara.  IMG_0575

Það greip okkur einstök tilfinning að koma inn í og dvelja í þjóðgarðinum Yosemite því náttúran þar er ólík öllu sem við höfum hingað til kynnst. Við höfum skoðað eins mikið og hægt er að gera á þremur dögum með lítið kríli sem þarf sína tvo dúra á dag og þykist þar að auki vera orðinn of stór til að sitja í kerru og tollir bara í eina klukkustund á bakinu á pabba sínum. Í stuttu máli skoðuðum við Yosemite dalinn sem liggur miðja vegu í garðinum þangað sem meginstraumur ferðamanna liggur, þá fórum við að Glacier Point þaðan sem er stórkostlegt útsýni yfir dalinn og háa klettaveggi beggja vegna við hann. Þaðan fórum við til Wawona í sunnanverðum garðinum til  að skoða risatré sem eru stærstu lífverur jarðar að rúmmáli. Þar er einnig gömul landnemabyggð. Að lokum ókum við þjóðveg sem liggur í gegnum þjóðgarðinn frá vestri til austurs, útsýnið þar er sem kalla má “breathtaking”! Hugrún Gyða er enn ekki farin að kunna vel við sig í bílstólnum og því er það mjög dýrmæt stund þegar litla daman sofnar í bílnum. Það gerði hún einmitt í dag þegar við ókum þessa fallegu leið og til að vekja ekki stúlkuna urðum við að keyra framhjá hverju náttúruundrinu á fætur öðru – án þess að taka myndir!  

Það var afskaplega gaman að keyra suður með Kyrrahafinu frá Santa Cruz. Við heimsóttum bæ sem heitir Monterey þar sem er magnaðasta sjávardýrasafn sem við höfum augum litið, svo magnað að það er varla hægt að lýsa því í fáum orðum. Þar er líka sérlega skemmtileg fiskimannahöfn sem er gaman að spássera um. Miðbærinn er sjarmerandi og þar fundum göngugötu sem eru sjaldséðar hér í Ameríku. Selir glöddu augað er við gengum með ströndinni í þessum fallega bæ.  

Örfáum mílum sunnan við Monterey er annar afskaplega huggulegur bær sem heitir Carmel. Sá bær hlýtur að vera sumardvalastaður ríka fólksins því flestir bílar sem við sáum voru stífbónaðir Porchar, Lexusar, Benzar  Það var ekki laust við að horft væri á eftir okkur á rykugum Ford Airostar bílnum okkar. Í Carmel eru ótal litlar og krúttlegar búðir, veitingarstaðir og gallerý engin auglýsingarskilti eða merki um verslunarkeðjur. Ströndin við Carmel er ákaflega hrein og falleg en sjórinn því miður ískaldur. 

Suður af Carmel er friðlandið Point Lobos þar keyrðum við fram á tugi kafara sem voru ýmist að gera sig klára eða ganga frá. Þar er gamalt hvalveiðisafn. Við keyrðum í gegnum friðlandið með litlu dömuna sofandi en fengum okkur góðan göngutúr um fallega ströndina og ókum margar myndir.  

Syðsti viðkomustaður okkar var risIMG_0494afuruskógurinn (reedwood) í Big Sur. Við höfðum reyndar áður skoðað risafuruskóg í Herycowell state park við Santa Cruz og satt best að segja vorum við á báðum áttum hvort við ættuð að skoða fleiri risafurur en það var þess virði. Það er einstök tilfinning að standa við tré sem búið er að vera þarna í allt að 3000 ár á sama stað og standa af sér skógarelda og jarðskjálfta. Víða mátti sjá ummerki um skógarelda og virtist sem eldarnir næðu helst að grafa sig inn í tréin við ræturnar jafnvel svo djúpt að í einu tilviki gátum við staðið inni í lifandi tréi. 

Hugrún Gyða er að standa sig vonum framar í ferðinni og er óspör á skemmtiatriðin þegar hún vakir og það er gaman að fylgjast með hvað hún er fljót að bæta við sig orðum.  Í sumum tilvikum notar hún eitt orð yfir margt. Eitt kvöldið vorum við gá hvort hún væri farin að segja pabbi og bentum á hvort annað til skiptis. Þetta er mamma og hver er þetta. Svarið stóð ekki sér. Hugrún Gyða rótaði í bringuhárum pabba síns og sagði meee.  

Bestu kveðjur úr eyðimörkinni, María og Þorsteinn    

A flakki

Thvilikt astand - vid hofum varla komist neitt a netid i marga, marga daga og hofum thvi svikid ykkur lesendur godir um nyjar sogur af ferdalagi okkar.

Vid yfirgafum Santa Cruz sidastlidinn fostudag og erum nuna stodd i Yosemite thjodgardinum, sem ma segja ad se fyrsti thjodgardur sem var stofnadur i heiminum. Her hofum vid verid i tvo daga og forum a morgun, aleidis til baka til Eugene. Thar aetlum vid ad vera naestkomandi laugardag. Vid hofum gert margt skemmtilegt undanfarid, doludum okkur vid Kyrrahafsstrond, heimsottum San Francisco og aetlum ad gera margt skemmtilegt a leid okkar til Oregon, t.d. heimsaekja thjodgardinn Redwoods sem er a morkum Oregon og Kaliforniu, Kaliforiumegin.

Vid skrifum meira af okkur thegar vid komumst i betra samband, erum nuna i hotelmottokunni a tolvustandi, ekki skemmtilegustu adstaedur.

Bestu kvedjur fra okkur fra heimaslodum svartbjarna.

Maria og Thorsteinn


Næsta síða »

Um bloggið

Living in America

Höfundur

María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason
María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason

Vorum í fæðingarorlofi í Oregon í henni Ameríku í þrjá mánuði en erum nú komin heim.

 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Hvíld
  • Þjónn!
  • Við gömlu brennsluofnana í Dachau
  • Í svefnskala fanganna
  • Dachau

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband