Ferðasaga frá Þýsku ölpunum júní 2007

Aðdragandinn
Við hjónin fáum stundum eða ansi of skyndihugmyndir og erum fljót að framkvæma þær sem við teljum góðar. Þannig var rokið til og keypt ferð til Þýskalands fyrir hópinn í júní sl (áður en við síðar ákváðum að skella okkur til USA). Það var legið á netinu í ansi mörg kvöld og helgar til að finna góða gistingu, hagkvæman farkost osfrv. Reyndar tók þessi skipulagning allt of mikinn tíma og við gáfumst upp á að reyna að leigja íbúð í Munchen. Planið er því að vera 5 nætur í Mittenwald, aðrar fimm í Bertesgarden og svo fjórar við Sleersee.

Ferðin til Þýskalands
Flugið til Þýskalands gekk vonum framar og Hugrún Gyða stóð sig vel og hafði gaman að. Miklu skipti að við gátum skipt um sæti, haft Hugrún Gyðu á milli okkar og hún gat fengið sér lúr.

Á flugvellinum fengum við afhenta BMW bifreið en fljótlega kom þó í ljós að aðeins ein barnakerra komst í skottið en ekki sá ferðatöskufjöldi sem hafði verið lofað á netinu. Sem betur fer var hægt að skipta og við fengum Hunday Santa Fe bifreið sem stóð undir væntingum.

Það tók smá tíma að komast út af flugvallarsvæðinu en það tókst á endanum þökk sé kortalesaranum Maríu. Það var komið myrkur þegar við komum til Mittenwald, fyrir hreina tilviljun spurðum við til vegar nákvæmlega þar sem við áttum að beyja af aðalveginum. Bóndinn kom skömmu síðar og vísaði okkur leiðina á hjólinu sínu og sendi okkur í rúmið með bjór og vatn.

Una Björg var svo spennt að hún reif sig á fætur fyrir allar aldir móður sinni til mikillar armmæðu enda svaf sú stutta eins og steinn og svefninn er dýrmætur þegar ekki er of mikið af honum. Prinsinn Eyvindur vaknaði passlega í nýbökuð brauð sem fjölskyldan sótti í næsta bakarí á hjólum sem við höfðum afnot af að vild.

Mittenwald er fjallaþorp í Ölpunum og í þeim enda bæjarins þar sem við bjuggum var nokkurra mínútna gangur til Austurríkis. Fjöllin eru mörg um 2300 metra há og eitt slíkt blasir við út um svefnherbergisgluggann okkar. Áin Ísar sem er lítil jökulá rennur í gegnum bæinn og gefur honum skemmtilegan svip. Bærinn er frekar gamaldags og flest húsin eru byggð í hefðbundnum Landhaus stíl. Í bænum var allt fullt af ellilífeyrisþegum og ljóst að hinn vinnandi þjóðverji var ekki kominn í sumarfrí. Hugrún fékk náttúrlega talsverða athygli

Íbúðin okkar er á tveimur hæðum með ótrúlega íburðarmiklu baðherbergi miðað við annað í húsinu. Þar má nefna tveggja manna baðker, tveir vaskar með kopar blöndunartækjum, nuddsturtu og klósettsetu sem ekki skellist þegar henni er lokað.

Forsjál eiginkona mín hafði pantað burðarbakpoka af bestu gerð á netinu fyrir Hugrúnu Gyðu og var brunað til Garmisch Partenkirken að sækja hann. Fengum hellirigningu á leiðinni en veðrið lék annars við okkur.

Bóndinn stjanaði við krakkana. Una Björg fékk prufureiðtúr á Merlin, austurrískum Hofflander, sauð þrjóskum hesti sem hlýddi ekki hefðbundnum skipunum með sparki í kviðinn heldur þegar kallað var á hann. Börnin fengu svo nokkuð góðan reiðtúr um fallegt svæði skiptust á að sitja hestinn meðan við bóndinn fylgdum á hjóli.Bóndinn á eina geit einn asna og einn hest og þau fara saman í gönguferðir.

Bóndinn var nokkuð fróður um íslenska hestinn og vissi að hann hafði fimm gíra hann sagðist þó ekki hafa efni á slíkum því hann kosti 5000 evrur í Þýskalandi, meðan hægt er að fá þann austurríska á nánast ekki neitt.

Frá Mittenwald fórum við í dagsferð til Wahlensee þar sem gengið var um í skóginum og börnin leigðu sér bát meðan við nutum þess að sjá Hugrúnu Gyðu njóta tilverunnar og skoða blóm og andarunga.

Við ákváðum að skipta liði í einn dag. Við Eyvindur fórum í fjallgöngu en stelpurnar í bíltúr og gönguferð. Við gengum  að Brunsteinhütte og fengum okkur vænan hádegisverð og keyptum göngukort. Þaðan gengum við í átt að tindinum sem gnæfir yfir húsinu okkar ekki var útlitið gott því þoka lá yfir fjallstindunum en það var freistandi að ná 2000 metra markinu sem GPS tækið mældi skilmerkilega. Það kom á daginn að í þann mund og því marki var náð hvarf þokan og við gengum í heiðskýru upp á hvern tindinn á fætur öðrum yfir fjallshryggi en leiðinni var heitið að kláfi við fjallið Karwendel. Við vorum reyndar vonlitlir um að ná kláfnum niður þar sem hann hættir að ganga snemma dags. Ferðin að Karwendel sóttist vel var ævintýralega erfið, ef ekki hefði verið fyrir góða stígagerð eða öllu heldur stigagerð hefði leiðin verið okkur með öllu ófær þar sem við trítluðum um á skjannahvítum strigaskónum. En stigar og stálvírar voru allstaðar þar sem þeirra var þörf og við komumst klakklaust að kláfnum. Þegar þangað kom var farið að rigna og komið kvöld. Ekki tókst okkur þó að finna stystu leið niður og þar varð úr að við tókum stíg sem liggur til baka að  Brunsteinhütte og reyndist það létt leið. Þau voru frekar sársaukafull sporin niður enda kapparnir í lítilli þjálfum. Þetta var þó góður dagur og erfiðisins virði.

Eftir fimm daga í Mittenwald var pakkað í bílinn og keyrt áleiðis til Bertesgaden en með ísstoppi í fallegu skíðaþorpi Sheefeld sem við María heimsóttum síðast þegar við vorum á ferð með Staðardagskrárfólki fyrir um fjórum árum. Þaðan var förinni heitið eftir hraðbraut sem liggur til Inspruck með viðkomu í kristalsafninu í Wattens þar sem kvenkynið fjárfesti í fallegum munum. Við gengum túristahringinn í gegnum Kristalwelten sem er nú kannski meira eins og listasafn þar sem kristall er notaður að miklum hluta.

Við vorum ekki svikin á útsýninu í íbúðinni okkar á Bertesgaden sem bar nafnið Panoramablik með rentu. Fjallahringurinn við Bertesgaden sást vel af svölunum helst að telja Kehlstein þar sem tehús Hitlers er á toppi. Fjöllin ofan við Köningsee eru líka stórbrotin og það væri auðvelt að týna sér í þeim í nokkra daga. Veðrið hefur kryddað útsýnið mikið og við fengum allt frá mjög góðu í ævintýralegt þrumuveður með stórbrotinni eldingasýningu. Eitthvað sem á minn mælikvarða slær norðurljósunum okkar alveg við þó ég vildi ekki skipta.

Ekki get ég sagt að hitinn fari vel í mig þannig verður minna úr hreyfingu en ætlað var. Við erum reyndar búin að labba mikið í skóginum og fórum í sund í ískaldri sundlaug sem Hugrún Gyða lét ekki bjóða sér, hún klóraði sig bara upp handlegginn á pabba sínum og fékkst ekki til að sýna sig neitt. Skokk og líkamsrækt sem var ofarlega í huga við skipulagningu ferðarinnar hefur hins vegar alveg setið á hakanum. Hjá mér og ekki hjálpaði að maría gaf líkamsræktartækjunum í kjallaranum ekki háa einkunn. Svo spilar kannski inní smá þreyta eftir fjallgöngu. Jæja þetta er kannski ekki svo slæmt. En ég kæmi örugglega engu í verk ef ég byggi í þessum hita.

Við aðkomuna að þjóðgarðinum í Bertesgaden blasir við Mac Donalds æ æ. Bílnum er lagt á bílastæði í nokkurri fjarlægð því umferð ökutækja er bönnuð í garðinum. Gengið er um göngugötu að Köningsee þar sem eru fornlegar verslanir á báða hendur, þær voru lokaðar þegar við vorum á ferð þarna 21. júní enda ekki margt um ferðamenn og ljóst að þjóðverjar eru ekki komnir í sumarfrí. Við gengum skemmtilegan en stuttan hring við Köningsee. Mikil leit var síðan gerð að ítölskum veitingarstað sem fannst fyrir rest í miðbæ Bertesgarden þar fékk sú minnsta Brusetta, Líklega er Hugrún Gyða með þeim yngri sem fengu rétt á veitingarstaðnum allavega vakti hún mikla athygli þjónsins.

Schliersee er fallegur bær. Dvöldum þar á heimili þar sem við fengum efri hæðina útaf fyrir okkur. Heimilishundurinn Herkúles vakti óskipta athygli þeirrar minnstu. Eyddum einum degi við vatnið Spitzingsee fórum upp með Taubensteinbahn og löbbuðum niður. Við vatnið vakti athygli okkar risastórt Cheraton hótel með svakalega flottum bílum fyrir framan. Þetta er mjög friðsæll staður og ekki ólíklega hvíldarstaður yfirstéttarinnar.

Fangabúðirnar í Dachau
Við heimsóttum Dachau fangabúðirnar fyrir norðan Munchen. Fyrir utan búðirnar eru myndir af því þegar amerískir hermenn frelsuðu fangana 1945. Við gengum inn í búðirnar þar sem kaldhæðisleg áletrun „arbeit macht frei" stendur á hliðinu. Í Dachau fóru ekki fram fjöldaútrýmingar þó þúsundir fanga hafi týnt lífi sínu þar. Í búðunum voru fangar notaðir sem tilraunadýr, kannað var þol þeirra í kulda, hvernig þeir þoldu þrýsting og einnig voru þeir smitaðir af malaríu. Fæstir lifðu tilraunirnar af. Margir fanganna frömdu sjálfmorð með því að hengja sig eða hlaupa á rafmagnsvír sem lá umhverfis búðirnar, en einnig voru fangar neyddir til þess að fremja sjálfsmorð eða drepnir og látið líta út fyrir að um sjálfsmorð væri að ræða. Í skála fyrir sérfanga hafði hver fangi sinn klefa, þar fóru fram viðbjóðslegar pyntingar og aftökur. Kl tvö að  nóttu var fangi í klefa nr. 1 vakinn og hinir fangarnir heyrðu þegar járnin duttu í gólfið. Fanginn var síðan dreginn út á plan og látinn standa fyrir framan vegg og skotinn. Fjöldamargir svefnskálar voru í búðunum. Í hverjum svefnskála voru vistaðir 500 fangar. Á hverjum degi fengu þeir klukkutíma til að taka til og þrífa skálann og var talað um djöfullegar kröfur sem gerðar voru til fanganna um snyrtimennsku, refsingar voru fyrir minnstu yfirsjón. Í byggingu fyrir utan búðirnar er gasklefi og brennsluofn sem tekinn var í notkun 1943 þar sem gamli brennsluofninn var hættur að hafa við. Talið er að 11.000 fangar hafi verið brenndir í gamla ofninum. Í nýja húsinu var sérstakt herbergi þar sem föt fanganna voru sótthreinsuð. Annað þar sem þeir afklæddust áður en þeir gengu í gasklefann, þar  bakvið var líkherbergi þar sem líkin biðu þess að verða send í ofninn. Annað líkherbergi var fyrir lík fanga sem voru flutt þangað úr búðunum. Eftir að amerískir hermenn hertóku búðirnar voru þær notaðar til að vista þýska stríðsglæpamenn. Settur var á fót herdómstóll og voru margir teknir af lífi með hengingu. Herdómstóllinn var síðar fyrirmynd af dómstól fyrir stríðsglæpamenn.

Þorsteinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Living in America

Höfundur

María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason
María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason

Vorum í fæðingarorlofi í Oregon í henni Ameríku í þrjá mánuði en erum nú komin heim.

 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Hvíld
  • Þjónn!
  • Við gömlu brennsluofnana í Dachau
  • Í svefnskala fanganna
  • Dachau

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband