Tómarúm

IMG_4171Stóru börnin okkar og Guðrún systir sem er búin að vera með okkur í tíu daga fóru heim í dag. Við hjónin erum með hálfgerð fráhvarfseinkenni því það er svo mikil þögn í húsinu og tómarúmið umkringir okkur. Ekki laust við að tára verði vart því söknuðurinn er mikill enda eigum við ekki eftir að hitta gormana okkar í tvo mánuði. Ég kveikti meira að segja á sjónvarpinu í fyrsta skipti áðan til að slá aðeins á þögnina. Fórum í Fred Meyer og ég keypti Levi´s gallabuxur á 1200 kall en litla músin mín missti úr dúr og var ekki á því að pabbi sinn ætti að kaupa fleiri. Fékk mér líka klippingu, þar fauk 1000 kall, en ég sinnti landkynningu af miklum móð á meðan og laug pínu því ég sagði að Íslendingar væru ekki heiðnir heldur tryðu þeir allir á guð.

Þorsteinn


Haldið í suður

IMG_4165Síðustu dagar eru búnir að vera viðburðarmiklir og hluti af dagskránni var að fara í fjallakofa sem Sam vinur Jims var búin að bjóða okkur afnot af. Gallinn var bara sá að handskrifaða kortið sem hann hafði eftirlátið okkur ásamt símanúmeri var glatað og því gátum við ekki látið manninn vita af komu okkur. Við fórum því upp á von og óvon. Vel gekk að finna staðinn eftir um tveggja tíma akstur. Sam var að búa sig undir að fara þegar við komum en hann tók okkur fagnandi afhenti lykla og sýndi okkur hvar allt var svo var hann rokinn. Strákarnir voru í skýjunum því þeir fengu afnot af sitt hvoru fjórhjólinu og þar sem landareignin liggur að þjóðarskóginum þá þurftu þeir ekki að hafa áhyggjur af varðhundum né skotglöðum landeigendum.

Sumardvalarstaður  hjónanna Sams og Cyndyar bar með sér merki um fáséða snyrtimennsku sama hvar litið svo við áttum ekki orð. Bústaðurinn var með svolítið spes þema en hvarvetna mátti sjá myndir af léttklæddum konum í undirfötum liðinna tíma. Við héldum inn í skóginn þar sem við María vorum bitin af risa maurum. Ég hefndi mín grimmilega í kvöld þegar ég sá risamaur (1 sm) á eldhúsgólfinu og skolaði honum niður í kvörnina í vaskinum. Annars er ég undantekningarlaust góður við dýr. 

Stóri plúsinn við að fá sumarbústaðinn í skóginum var að þaðan er örstutt að fara í þjóðgarðinn Crater Lake (stofnaður 1902) sem er ein mesta náttúruperla Oregon og þangað héldum við í kjölfarið. Það er ekki orðum aukið að vatnið sem er í um 7000 ára gamalli öskju, er stórkostlegt. Ég varð þó fyrir miklum vonbrigðum með hvað er búið að gera aðgengið að vatninu gott. Malbikaður vegur er kringum allt vatnið með þrjátíu útsýnisstöðum yfir vatnið. Einnig er öll þjónusta til staðar við vatnið sem og minjagripasala og gistiaðstaða. Þetta kom á óvart því ég hélt að Kaninn væri svo framarlega í náttúruvernd af því að þeir fóru fyrstir á stað. Það var ekki fyrr en við gengum upp á eitt fjallið við vatnið að ég náði að njóta þess fyllilega að vera á þessum magnaða stað.


Saturday Market

IMG_4130Laugardagsmarkaðurinn hér í Eugene á sér um 35 ára sögu. Þar koma saman listamenn frá Eugene og nágrenni til að selja vörur sínar, sem og ávaxti og grænmetisbændur sem bjóða til sölu nýjustu uppskeruna. Þarna er gaman að koma og skoða sig um og fá sér svo úrvals hádegismat þegar hungrið steðjar að. Við héldum því á markaðinn sl laugardag til að drekka í okkur stemninguna.

Markaðurinn hefur farið sístækkandi með árunum og er býsna stór í dag. Einkenni markaðsins eru hipparnir sem eru mjög áberandi, bæði seljendur og þeir sem heimsækja markaðinn. Á laugardaginn vorum við sérlega heppinn því þrælskemmtileg "reggie" hljómsveit hélt uppi stuðinu og kveikti á hreyfiþörf áheyrenda því mátti sjá hippa og annað fólk  á öllum aldrei sveifla sér í takt við tónlistina.

Frá torgi skammt frá barst taktfastur trommusláttur og þegar betur var að gáð var þar samankomið fólk með hljóðfærin sín hver sem þau nú voru - allt frá fiðlu, þverflautu, afrískum trommum niður í plastfötur og spiluðu eftir eyranu. Nokkrir dönsuðu sinn eigin dans sem átti vel við tónlistina.

Já, hippar eru algengir í Eugene, þeir eru alls staðar. Ekki bara á Laugardagsmarkaðnum. Enda er það víst staðreynd að í borginni eru samankomnir hvaðanæva að úbrunnir  hippar sem og þeir sem hafa tileinkað sér lífstílinn síðar. Svolítið gaman að þessu J

María


Ófarir á Íslandi

Fyrir nokkrum dögum fengum við slæmar fréttir frá Íslandi. Jim og Camille hjónin sem við skiptum á húsi og bíl við, urðu strandaglópar á Laugum í Reykjardal þegar bíllinn okkar sendi frá sér svartan reyk og óhljóð og neitaði að fara lengra. Við fréttum af því að lögreglan hefði komið þeim til bjargar og útvegaði þeim bílaleigubíl á Húsavík en þangað voru þau ásamt Angelu dóttur sinni einhverra hluta vegna flutt í sjúkrabíl. Yndislega Ísland. Angela þurfti að fara í flug daginn eftir þannig að þau brunuðu suður og komu henni í flug í tæka tíð.

Nú voru góð ráð dýr einhvern veginn þurfti að útvega bíl því blessuð hjónin voru ný komin til landsins og við algerlega ekki að standa við okkar.

Því má bæta við að húsbóndi heimilisins hafði í byrjun júlímánaðar klessukeyrt bílinn og þegar hjónin lentu á klakanum hafði Jóhannes réttari ný lokið við að gera hann kláran.

Símtal við Hermann bifvélavirkja á Laugum gaf okkur ekki mikla von um að hjónin gætu notað bílinn okkar. „Olía á túrbínunni og líklega þarf að senda vélina til Reykjavíkur og gera við hana þar. Þú mátt eiga von á að þetta kosti 400 þúsund hið minnsta, þú ert þá bara heppinn ef það er minna. Þetta hefði getað gerst hvenær sem er." Ég lagði málið í hendurnar á manninum enda ekki um annað að ræða en að gera við skrjóðinn. Opið veski en óvíst hvað fyki mikið úr því..

Áður en dagurinn var á enda voru tveir kostir í stöðunni Jóhannes réttari vissi um gamlan mann sem var að fara að selja bílinn sinn og bauðst til að kanna hvort hann væri til í að leigja hann fyrir lítið. Ég hafði einnig samband við Halla og Gerðu sem eiga tvo bíla og ég falaðist eftir hvort þau mættu sjá af Skódanum í einhver tíma. Þar sem mamma Halla var akkúrat að lenda á Kanarí og bíllinn hennar því ekki í notkun á meðan varð úr að Halli og Gerða lánuðu hjónunum drossíuna. Halli samdi jafnframt um að þau þyrftu ekki að skila bílnum fyrir norðan eins og til stóð og sparaði þeim því auka ferð þangað. Halli og Gerða þið eruð æði. Takk.

Við fengum skeyti frá Jim og Camille þar sem þau lýstu ánægju með dvölina og þökkum til allra sem hafa komið þeim til aðstoðar. Þau eru nú rokin á Vestfirði með Rebeccu dóttur sinni sem ætlar að dvelja með þeim í nokkra daga. Við hittum líka Angelu dóttir þeirra hér í Oregon, hún átti ekki orð yfir íslensku lögregluþjónana en þeir voru í fjóra tíma að dekra við þau.

Ég ræddi við Hermann í síma í dag hann sagði mér að bíllinn væri komin í umboðið á Akureyri og útlitið væri ekki eins slæmt með bílinn og það leit út fyrir í fyrstu. Hvað sem það nú þýðir. Meira af því síðar.

Þorsteinn

 


Block party

Það er óhætt að segja að það er margt að gerast á Tigertail road. Þar sem þetta er botngata þá þekkjast allir og þeir sem koma nýjir fá fjölmörg tækifæri til þess að blanda geði við nágranna sína. Það er siður hér að halda „block party“ þar sem öll blokkin eða þá húsaröðin kemur með einhvern rétt og drykki og svo er þetta sett í pott og úr verður rosa veisla. Að þessu sinni buðu Beth og Steve á móti.

Við Íslendingarnir vorum náttúrlega að læðast heim í þann mund sem partýið var að byrja með innkaupapokana en allt var sett í gang og tuttugu mínútum síðar var famelían tilbúin og komið dýrindis salat í skál með hómmeit dressing.  Þetta var hin skemmtilegasta samkoma og við hittum nokkra nýja nágranna og börnin fengu tækifæri til að kynnast öðrum börnum í götunni. Enn fleiri buðu okkur hjálp ef eitthvað væri. David bauð börnunum að hoppa yfir girðinguna og nota sundlaugina sína þegar þau vildu, hann kom jafnframt með þá tillögu að krakkarnir okkar kæmu með þeim feðgum í frisby-golf daginn eftir sem þau þáðu.  Kay við hliðina ætlar að týna saman nokkur eintök af tímariti um ströndina við Oregon, enn fleiri komu með tillögur að því sem við verðum að sjá. Maður er bara orðlaus og ég held að ég hafi aldrei kynnst svona hjálplegu fólki. Það er ekki nóg með það því hér eru allir svo eðlilegir og koma til dyranna eins og þeir eru klæddir.  

Ég held að við munum læra svo margt hér okkur til góða.  


Útilega í Mið-Oregon

IMG_4003Bíllinn þeysist áfram um gróðursælan og skógivaxinn dalinn þar sem McKenzie áin, ein helsta fluguveiðiá Oregon rennur um dalbotninn. Sólin skín í gegnum trjátoppana og sendir geisla sína inn í bílinn svo loftkælingin þarf að vera stillt í botn. Bíllinn stappfullur, fólkið fyrst og kíttað í með farangri  því Beth og Steve, fólkið í húsinu á móti, lánaði okkur viðlegubúnaðinn sinn, uppblásnar lúxusdýnur, aukatjald fyrir strákana (vorum með okkar eigið líka) og svefnpoka fyrir alla fjölskylduna, ekki þessa litlu nettu eins og við eigum heima, heldur volduga poka af stærstu gerð. Að auki er í bílnum gúmmíbáturinn hans Jims, bakpokinn fyrir Hugrúnu Gyðu og joggerinn, þriggja hjóla kerra prinsessunnar.

Við ökum áfram í austurátt og sækjum á brattann. Nú förum við að sjá hraun, alveg eins og þetta sem við þekkjum heima, svart og úfið. Það sem er þó öðruvísi en heima er skógurinn, risavaxin trén, sem rísa upp úr hrauninu. Eftir smá stund breytir skógurinn heldur betur um svip og verður sótsvartur en ótrúlega víðáttumikil flæmi urðu skógareldi að bráð árið 2003 eða rúmlega 90 þúsund ekrur.

Við hugsuðum okkur áður en við lögðum af stað að þetta yrði hálfgerð lúxusútilega. Við myndum ekki taka mikið nesti með okkur heldur kaupa matinn á staðnum. Við sáum fyrir okkur grasi gróna bala þar sem Hugrún Gyða gæti tiplað um á tánum, fína snyrtiaðstöðu og svo fram eftir götunum. Við höfðum nefnilega heyrt að í Ameríku væru ein flottustu tjaldsvæði sem fyrirfinnast. En í staðin fyrir kælandi sturtu og græna grasbala sem við vonuðumst eftir á Camp Sherman, fyrri gististaðnum okkar, biðu okkar kamar með sinni hefðbundnu lykt og þurr moldar/malartjaldstæði. Hverju tjaldstæði fylgdi síðan eldstæði sem voru óspart notuð að tjaldgestum, þrátt fyrir að hætta á skógareldum væri "high". Lyktin var megn og ég er ekki frá því að nefskíturinn morguninn eftir hafi verið svartur. EN, svæðið undur fallegt og gaman að ganga með Metolius River, sem er jafnvel enn betri fluguveiðiá en McKenzie River. Enda klæjaði mínum manni í fingurnar og langaði mikið að prófa veiðigræjurnar hans Jims sem meira að segja voru með í bílum en því miður hentaði ekki alveg skipulaginu enda margt sem þurfti að skoða.

Næsta dag var haldið af stað, enn lengra í austur. Við ókum í gegnum Sisters, skemmtilegan bæ í dálitlum "cowboy" stíl, skelltum okkur til sunds í á einni rétt hjá Redmond og fórum að Smith Rocks sem minna á klettafjöllin. Við gistum á tjaldsvæði sem heitir LaPine og þar var hægt að komast í sturtu. Hins vegar var verra með matinn. Við ákváðum nefnilega að koma upp tjaldi fyrir myrkur og fá okkur svo að borða. Eftir að tjaldið var klárt ákvað Þorsteinn að fara með strákunum til að ná í mat 40 km leið og við Una Björg og Hugrún Gyða urðum eftir. Þegar búið var að gefa litlu ponslunni að borða og hún sofnuð var mín jafnvel farin að búast við eiginmanninum og strákunum til baka. Við mæðgur létum hugann reika um hverju mætti búast við í kvöldmatinn og þegar okkur fór að lengja biðin fórum við að spjalla um heima og geyma og fara í orðaleiki. Enn bólaði ekkert á matnum né strákunum. Eins og gjarnan gerist við þannig aðstæður fór hugurinn í minni af stað. Sennilega hefðu þeir villst á leiðinni og tafist þess vegna. Hugurinn fantaseraði áfram og nú var löggan búin að stoppa Þorstein fyrir of hraðan akstur, skyldi ekkert upp né niður í þessu íslenska ökuskírteini og tók kallinn því með á stöðina. Enn leið tíminn og þeir búnir að vera í burtu í tvo og hálfan tíma. Þá var ég farin að sjá fyrir mér alvarlegt umferðarslys og orðin verulega hrædd um kallana mína. Ég reyndi og reyndi að ná í þá í farsíma en ekkert gekk. Ég reyndi að þykjast ógurlega svöl svo Una Björg færi ekki að verða hrædd líka en innra með mér var ég orðin mjög óróleg. Klukkan var nú farin að nálgast miðnætti þannig að ég tók þá ákvörðun að við skyldum bara reyna að sofna, við myndum bara vakna þegar maturinn bærist. Við heyrðum af og til í bílum en það var um miðnætti sem við heyrðum rétta bílhljóðið. Hjúkk. Þvílíkur léttir. Ég þyrfti ekki að fara að gera leit að þeim í birtingu eins og ég var farin að óttast. Eftir þriggja klukkustunda bið birtist lúxusmatarbakki með T-bone steik og fínasta meðlæti og rauðvínsglas í tjaldsgættini, Pinot Noir frá vínbónda í  Oregon rennur ljúft niður. Allar áhyggjur mínar á bak og burt. Bottomline: Í Ameríku tekur allt langan tíma!!

María


Á leið í útilegu

Um helgina ætlum við að prófa að fara í útilegu. Ætlum að passa okkur á að skilja allan mat eftir í bílnum svo við fáum ekki birni í heimsókn. Þau Beth og Steve hér á móti eru svo yndisleg að þau eru búin að lána okkur allan þann viðlegubúnað sem okkur vantaði svo við erum í góðum málum.

Meira eftir helgi!!


Eugene

Eugene er þriðja stærsta borgin í Oregon og þar búa um 130.000 manns. Borgin stendur við ána Willamette. Auðvelt er að rata um borgina því 1. stræti er við ána og svo tekur við hvert númeraða strætið á fætur öðru til suðurs. Þvergöturnar hafa allar nöfn. Flestar götur í borginni eru einstefnugötur en hægt er að aka í báðar áttir um þær stærstu. Þetta á við um miðbæinn. Umferðarmannvirkin eru býsna flókin og plássfrek þegar nær dregur hraðbrautunum og þá er ekki ónýtt að hafa góðan kortalesara þó það dugi ekki alltaf til. Í köntuðum bænum er ógrynni af verslunum, matsölustöðum og stórmörkuðum og engin leið er að skilja hvernig þeir geta allir borið sig, flestir opnir frá árla morguns til miðnættis. Vöruúrvalið er endalaust og verðið hagstætt eins og nærri má geta en það er býsna tímafrekt að detta inn í stórmarkað. Þessi bær ber síðan til viðbótar þrjú "moll" sem ég hef alveg látið aðra fjölskyldumeðlimi um að skoða fram að þessu.

Það vakti strax athygli okkur að við fjölmörg gatnamót við miðbæinn situr fólk misjafnlega illa til fara með handskrifuð pappaspjöld, venjulega með fyrirsögninni HELP - homeless.  Sömu einstaklingarnir sitja á sama stað dag eftir dag og betla. Við höfum þó enn ekki séð neinn veita þessu fólki athygli. Okkur er þó sagt að margir  safnist saman á kvöldin og deili með sér feng dagsins. Þannig virðist vera til samhjálp aumingjana sem kerfið styður ekki. Hvað fær fólk til að sitja undir heitri sólinni dag eftir dag á sama horninu?

Margir hér hafa lúsarlaun eða um 7 dollara á tímann (ca. 350 kr). Á þessum launum er ekki unnt að framfleyta fjölskyldu og ekki hægt að kaupa sér lífeyristryggingu. Lífeyriskerfið hér var áður þannig að fyrirtækin borguðu lífeyristryggingu fyrir starfsfólkið meðan það var í vinnu en nú hefur það þróast í þá átt að sjálfstæðir sjóðir sem fyrirtækin og fólkið sjálft  greiða í, borga lífeyrinn. Algengt er að fólk fari á eftirlaun 65 ára og þá fyrst getur það fengið greitt úr eftirlaunasjóðum. Þeir sem fá lægstu launin hafa þó enga lífeyristryggingu. Ef fólk verður atvinnulaust fær það greiddar lágmarks atvinnuleysisbætur í mesta lagi sex mánuði. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að fá vinnu hér - ef þú hefur rétta menntun - en guð hjálpi þér ef þú hefur hana ekki.

Mér skilst að félagslega kerfið styðji ágætlega við bakið á fötluðu fólki og gömlu ef það er tengt við einhvers konar stofnanir en líkt og heima getur lyfjakostnaður og endurteknar læknaheimsóknir verið þessu fólki þungur baggi. En félagslega kerfið er ekki að virka! Bandaríkjamenn greiða hvað mesta allra þjóða í heilbrigðiskerfið á íbúa en heilsufar íbúa er lakt í samanburði við aðrar þjóðir. Ég ræddi við nágranna minn sem vinnur á vefjarannsóknarstofu spítalans um hormóna í kjöti. Ég sagði honum að  það væri altalað á Íslandi að ein ástæða fyrir offitu bandaríkjamanna væri hormónaleyfar í kjöti. Þetta kom honum mjög á óvart og hann sagði að mörg ár væru síðan að bannað var að nota slík lyf í landbúnaði og menn væru mjög strangir í sambandi við lyfjanotkun. Hver veit, en afturendinn á mörgum hér er að minnsta kosti ekki í nokkru samræmi við aðra hluta líkamans.

Það er mikil vakning í lífrænum mat  Viðskiptasíður blaðanna birta fréttir um að lífræn matvæli séu arðbær framtíðargrein og fjölbreytt úrvalkið í stórmörkuðunum ber þess merki. Verðið er vel samkeppnishæft við önnur matvæli og því njótum við þess að kaupa lífrænt í kroppinn á okkur - að minnsta kosti í bland.  

Stærstu vinnuveitendurnir hér í Eugene eru háskólinn „University of Oregon", spítalinn og starfsemi tengd honum. Hyundai er hér með mikla starfsemi og annað fyrirtæki framleiðir hverskonar húsbíla og hjólhýsi. Einn stærsti vinnuveitandinn er verksmiðja sem framleiðir íhluti í tölvur. Sú hefur nýlega sótt um leyfi til yfirvalda til að fá að auka útblástur á mengandi efnum. Íbúar í nágrenni eru órólegir yfir þessu enda hefur verksmiðjan smám saman verið að færa út kvíarnar en mörg vatnsból á svæðinu eru þegar menguð af einhverjum orsökum.

Þorsteinn


Villt í skóginum

Um miðjan dag í gær ákváðum við að demba okkur í hressingargöngu á Spencer Butte,IMG_3956 áður en við færum í matarboðið til Kathi og Dick. Það tók okkur svolítinn tíma að finna bílastæðið við fjallið þar sem skiltið lét lítið yfir sér og fundum við það ekki fyrr en við höfðum ekið þrisvar sinnum framhjá. Við lögðum af stað í gönguna létt í spori og Hugrún Gyða skríkti af kæti á bakinu á pabba sínum þannig að varla var hægt að tala saman. Göngustígurinn liggur um skóg alveg þangað til upp á topp kemur, í fyrstu mjög breiður og þægilegur stígur en þrengist og verður erfiðari eftir því sem ofar dregur. Áður en við lögðum á brattann rákum við augun í skilti sem varar við þrennu, í fyrsta lagi Poison Oak, sem er víst hræðilega skæð, lágvaxin planta sem brennir mann illilega ef maður snertir hana. Við höfðum verið vöruð við henni fyrirfram þannig að við vorum öll í síðbuxum í lokuðum skóm. Í öðru lagi getur maður átt von á að mæta skröltormum og í þriðja lagi var varað við dauðum trjám. Í skóginum er mikið af hávöxnum trjám, Douglas furu, sem öll eru ótrúlega beinvaxin vegna skógarhöggs sem átti sér stað á fyrri tímum. Undirgróðurinn einkennist af víðáttumiklu burknastóði.

Gangan upp gekk mjög vel og útsýnið af toppnum sveik okkur ekki. Við stöldruðum við smá stund en þó ekki of lengi því við vildum standa okkur vel og mæta á réttum tíma í matarboðið. Okkur grunaði ekki að við ættum eftir að lenda í ævintýri á bakaleiðinni!

Við lentum sem sagt fljótlega í því á niðurleiðinni að við þurftum að velja hvort við færum til vinstri eða hægri. Vinstri leiðin varð fyrir valinu sem reyndist reyndar strax ótrúlega "röff" leið og hrikalega brött og við urðum fljótlega viss um að þetta væri ekki sama leið og við fórum upp. Þetta var það bratt að okkur langaði ekki mikið til að snúa við svo við héldum áfram, enda virtist þetta fjölfarinn stígur þó erfiður væri. Eftir því sem neðar dró fór gróðurinn að aukast, við klöngruðumst yfir heilu trjábolina, skriðum undir trjágreinar, óðum burknann um í mitti og brenndum okkur á brenninetlum. Svo fór að okkur leist ekki lengur á blikuna, stígurinn eyddist út og týndist í frumskógarlegum gróðrinum. Við brutumst í gegnum gróðurinn að leita að stígnum og tíminn flaug. Ég fann ég hvernig lærvöðvarnir titruðu af áreynslu og hræðslan fór að ná sér á strik. Ég var farin að ímynda mér skröltorma undir næsta burkna og það hefði ekki komið mér á óvart að mæta úlfi eða birni bak við næsta tré. Hugrún Gyða skynjaði örugglega hræðsluna í mömmu sinni og var farin að hágráta. Við heyrðum raddir einhversstaðar fyrir ofan okkur af og til, hrópuðum halló þannig að bergmálaði um hlíðina, en fengum engin viðbrögð. Á þessu stigi ákváðum við að eina vitið væri að snúa til baka, sömu leið og við komum.

Sem betur fer rötuðum við rétta leið til baka og við tók heljarinnar fjallganga sem reif í lærin og var á við marga tíma í ræktinni. Okkur tókst að lokum að komast á staðinn sem við áttum að velja milli vinstri og hægri og í þetta skiptið völdum við hægri. Nú tók við kraftganga alla leið í bílinn og náðum við þangað kl. 18:30.  Sem betur fer hafði Kathi reynt að ná í okkur um daginn til að segja okkur að matarboðinu væri frestað um hálftíma, þannig að við náðum þangað á nokkuð réttum tíma. Allt endaði þetta sem betur fer vel og við þurftum ekki að ráfa um skóginn fram á næsta dag.

En það kemur á óvart, við sem héldum að öll svona útivistarsvæði væru til fyrirmyndar í Ameríku, að allar merkingar eru í lágmarki og það hlýtur að vera daglegt brauð að fólk velji vinstri leiðina.

María


Sundferð

Það er óhætt að setja að sundmenning er með öðrum hætti hér en heima. Fjölskyldan skellti sér í sund í gær þar sem býsna heitt var í veðri. Í afgreiðslunni fengum við að vita að aðeins barnalaugin væri opin því það væru námskeið í öðrum laugum. Sundlaugin er opin í um trjá tíma á dag fyrir almenning. Við ákváðum samt að skella okkur inn og skoða aðstæður. Verðið var mjög sanngjarnt við borguðum 7,5 dollara aðgang fyrir alla fjölskylduna. Hugún Gyða þurfti að vera í margnota sundbleyju sem var keypt á staðnum. Við áttum tvo möguleika að fara öll saman í fjölskylduskiptiklefann eða í kynjaskiptaklefa sem við völdum. Búningsskáparnir voru á stærð við lítinn örbylgjuofn en kom ekki að sök þar sem allir voru léttklæddir. Engar geymslur fyrir handklæði þar sem fólk tekur þau með sér út á laugarsvæðið. Sundlaugin er mjög flott og alveg í stíl við íslenska útilaug og allt fullt af fólki. Barnalaugin reyndist ísköld og var Hugrún Gyða komin með bláar varir og farin að skjálfa eftir tíu mínútur. Við demdum okkur því í heita pottin en því miður þar var 15 ára aldurstakmark og við vorum rekin upp úr (ásamt öðrum óprúttnum sundlaugargestum með börn). Skelltum okkur því í sólbað (það fyrsta í ferðinni, þar sem aðstæður til sólbaða eru ekki víða). Kl. 19 var lauginni lokað þrátt fyrir glaðasólskyn, við nýttum okkur þó sólargeislana til hins ýtrasta og vorum síðust til að koma okkur heim. Við fréttum líka að lauginni er lokað 3. september þar sem þá er orðið of kalt í veðri.

Það er gaman að kynnast ólíkri menningu. En hvað sundmenningu varðar þá er ég bara nokkuð sáttur við okkar.

Þorsteinn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Living in America

Höfundur

María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason
María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason

Vorum í fæðingarorlofi í Oregon í henni Ameríku í þrjá mánuði en erum nú komin heim.

 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Hvíld
  • Þjónn!
  • Við gömlu brennsluofnana í Dachau
  • Í svefnskala fanganna
  • Dachau

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband