Mín misstök okkar heppni.

IMG_4627Helgarferðin okkar tókst það vel að hún varð að 5 daga skemmtilegu ferðalagi. Við héldum af stað frá Eugene á föstudagsmorgni, ókum sem leið lá að Silver Falls sem er samheiti yfir 10 snotra fossa austan við borgina Salem. Við gengum hringleið sem að hluta til er malbikuð og liggur bak við tvo fossana, síðan meðfram ánni og um fallegan hlynskóg. Við nutum dagsins á þessum fallega stað og það var sérlega gaman að fylgjast með Hugrúnu Gyðu sem fékk að ganga síðustu metrana í skóginum í nýju Puma skónum sínum, sem henni þykir afskaplega vænt um. Þegar hún vill fá sér göngutúr í skónum sínum segir hún "labba", sem þýðir s.s. að labba í skónum en ekki berfætt.

 

Til að lenda ekki í því að leita að gistingu í myrkri ákváðum við hjónin að vera forsjál og panta gistingu við Salem að ráðleggingu „Lonely planet" bókar sem við höfum undir höndum. Það kostaði reyndar meiri akstur en okkur hefði órað fyrir því ég fór blaðsíðuvillt í handbókinni! Mótelið okkar átti að vera staðsett við gömlu þjóðleiðina til Portland en sama hve langt við keyrðum þá fundum við ekki mótelið. Við ákváðum sem betur fer að snúa ekki við til að leita betur, heldur hringja og afpanta gistinguna og finna eitthvað annað í staðin. Viðmælandinn á mótelinu talaði litla ensku og við höfðum þetta því einfalt: "Maria is not coming" og svarið var "ok, ok, Maria not coming".

 

Fyrr en varði var skollið á svartamyrkur og við vorum lent í aðstæðum sem við vildum ekki vera í, sérstaklega ekki þegar við vorum búin að eyða þremur klukkustundum í að leita að gistingu en allsstaðar fullt og okkur sagt að hvergi væri herbergi að fá alla leiðina til Portland. Á síðasta staðnum var okkur þó bent á að kíkja yfir götuna því þar væri lítið mótel. Okkur fannst nafnið kunnuglegt og viti menn... jú þetta var þá sama mótelið og við töldum að væri við Salem. Við bönkuðum á dyrnar og jú, María átti pantað herbergi þarna þökk sé lélegri enskukunnáttu eða einhverjum misskilningi. Við þurftum því ekki að keyra lengur þessa nótt. Mótelið var á sínum stað það munaði bara þriggja tíma akstri og einni opnu í Lonely planet.

Þorsteinn


Tígur í svefnherberginu

Við teljum okkur vera búin að finna bestu ísbúðina í bænum. Hún er á 19. stræti og er ekki hluti af stórri keðju, heldur lítil "local"búð þar sem ísinn er búinn til á staðnum. Við erum búin að fara þangað þrisvar á einni viku og ísinn þar er æði! Í annað skiptið sem við fórum þangað tókum við eftir húsi á móti sem lætur lítið yfir sér en þegar betur var að gáð er þar Traditional Italian Cuisine, ítalskur veitingastaður, sem hefur reyndar verið valinn besti ítalski veitingastaður Eugene 8 ár í röð. Það vissum við reyndar ekki í fyrradag þegar við ákváðum að prófa að borða á þessum látlausa stað í úthverfi borgarinnar, eftir vel heppnaðan göngutúr í Amazon Park, í staðin fyrir að grípa með okkur eina Dominos pizzu á leiðinni heim. Í stuttu máli sagt kom kvöldið skemmtilega á óvart. Við sátum á veröndinni í kvöldsólinni, fengum fínasta mat og í fyrsta skipti pöntuðum við sérstakan rétt fyrir Hugrúnu Gyðu, sem lék við hvern sinn fingur og dró að sér athygli nærstaddra, sérstaklega konu einnar á næsta borði. Sú varð alveg heilluð af litlu prinsessunni og talaði um hve mikið hana hlakkar til að eignast barnabörn. Eftir stutt spjall við hana og eiginmann hennar kom í ljós að þarna voru á ferð einn af saksóknurum Eugene og kona hans. Þau létu okkur nöfn sín og símanúmer og vilja ólm fara út að borða með okkur eitthvert kvöldið! Eitthvað grunar mig að Hugrún Gyða eigi þátt í því.

 

Hugrún Gyða er farin að myndasIMG_4613t við að segja fáein orð og vinsælasta orðið síðustu daga er MAMMA sem hún notar yfir okkur foreldana báða. Hún er líka svakalega dugleg að gera ýmis dýrahljóð og geltir eins og flottasti hundur þegar hún sér hunda, urrar þegar hún sér fugla, jarmar þegar hún sér kindur og ýmis önnur dýr eins og dádýr og hneggjar þegar hún sér hesta og kýr. Eins og sannri skvísu sæmir fór ég, mamman, í undirfataverslunina Victoria Secret um daginn, enda hafði ég ekki eignast almennileg nærföt síðan löngu áður en ég varð ólétt og löngu orðin leið á að ganga í óléttu- og brjóstagjafarnærfötum. Ég var bara býsna dugleg í búðinni og kom með stóran innkaupapoka heim. Um daginn var ég búin að dressa mig upp í eitt settið sem var í "very sexy" deildinni í búðinni. Það er með svaka flottu tígramynstri og mér finnst ég svaka pæja í því. Hugrún Gyða var að bjástra á gólfinu hjá mér en allt í einu heyri ég að hún var farin að gelta í miklum æsingi og jafnvel urra þegar hún horfði á mömmu sína í fína settinu!

 

Annars hafa síðustu dagar liðið í miklum rólegheitum. Við vorum með miklar fyrirætlanir um hin ýmsu ferðalög strax þegar stóru börnin færu heim til Íslands, en það hefur dregist. Kannski er hluti ástæðunnar sá að Hugrún Gyða heldur varla út að vera í bíl hér innanbæjar og því vex það okkur verulega í augum að leggjast í langferðalög. EN, á morgun, föstudag, ætlum við að leggja af stað í helgarferð. Sjá hvernig það gengur áður en við förum í lengri ferðir. Við ætlum að keyra norður til Portland sem er stærsta borgin í Oregon og skoða hana svolítið, síðan ætlum við að keyra í austurátt, skoða Multnomah fossa, Mt. Hood, hæsta fjall Oregon og ýmislegt fleira. Við erum líka svakalega spennt fyrir því að skoða safn sem heitir Oregon Museum og Science and Industry (OMSI) en þar eru settar upp sýningar með alvöru líkömum, kíkið á http://www.omsi.edu/. Ætlum að skipuleggja okkur þannig að við keyrum lítið en skoðum vel það sem við skoðum. Ég get samt alveg lofað ykkur að ef við rekumst aftur á skilti þar sem varað er við fjallaljónum á ég eftir að verða erfið í taumi. Þó lítil hætta sé á því að fjallaljón ráðist á menn verð ég samt að viðurkenna að ég var með hjartað í buxunum í göngutúrnum sem við fórum í síðustu helgi á staðnum sem nýlega sást til fjallaljóns.

 

Segjum ykkur ferðasögu eftir helgi.

 

María


Miðnæturgrúsk

Varað við fjallaljónumÞó auðvitað fari mikill tími í að sinna barnastússi í fæðingarorlofinu þá erum við María að bjástra eitt og annað. Helst finnst mér dagarnir hér vera of stuttir til að koma öllu í verk sem mig langar að gera og sjá. Það vantar björtu næturnar sem færa Íslendingum svo mikla viðbótarorku til að gera allt sem þeir þurfa að gera á sumrin.

Ég er að byrja að grúska í náttúruhandbókum sem Thea og Jeff lánuðu okkur. Við fórum klifjuð af bókum frá þeim úr matarboðinu á sunnudag. Thea er líffræðingur (eins og við) og á því mikið af athyglisverðum bókum. Hún  var búin að benda okkur á fallegt svæði sem heitir Mount Pisgah Arboretum sem við heimsóttum fyrir boðið. Við göngustíga inn á svæðið eru  skilti sem vara við fjallaljónum (púmum). Við ákváðum að lesa okkur aðeins betur til um þessi dýr og létum okkur nægja að ganga með ánni. Í framhaldinu fundum við grein um að það eru minni líkur á að verða fyrir árás fjallaljóns en að verða fyrir eldingu, ég á þó eftir að láta á það reyna hvort ég get dregið Maríu með mér á fjallið enda ófáir sem hafa orðið fyrir eldingu.

María hefur alveg kveikt í mér og sannfært mig um að okkur bráðvanti nýja myndavél. Reyndar eigum við góða myndavél sem við notum óspart. Ég hef mjög gaman af því að taka myndir eins og lesendur hafa kannski tekið eftir en er ekki alltaf  ánægður með árangurinn og vil þá meina að það sé myndavélinni um að kenna. Því varð úr að við pöntuðum Canon EOS 400E með einhverri ótrúlega góðri linsu á Ebay en það munar mörg hundruð dollurum á verði þar og í lágvöruverslunum hér. Það er ótrúlegt hvað mann getur hlakkað til að eignast nýja hluti, er þetta í lagi?

Síðustu kvöld höfum við legið yfir kortum og erum að skipuleggja að fara eitthvað norður, kannski til Seattle og Vancouver og heimsækja jafnvel Olympic national park. Einnig höfum við áhuga á að fara aðra ferð suður til Kaliforníu. Við erum mjög spennt að kíkja á þjóðgarða, t.d Red wood og Yosemite en það gæti verið of langur akstur fyrir Hugrúnu Gyðu. Við höfum verið að skoða möguleika á að leigja húsbíl en höldum að það verði of dýrt,  það verði jafnvel hagstæðara að vera á mótelum. Þá getum við aftur á móti ekki eldað...... þ.e.a.s ég.. Allar uppástungur um ferðalagið og hvað gæti verið gaman að sjá eru vel þegnar.


Stórir sigrar

Happy babyHún Hugrún Gyða er nánast alltaf í góðu skapi og það er gaman að fylgjast með henni þessa daganna eins og endranær. Sú stutta er fljót að ná athygli nálægra með því að vinka (með lófann að sér) og segja „æ" (hæ). Við foreldrarnir erum heldur ekkert hissa að fólk skuli hvað eftir annað hæla dótturinni. „this is happy baby", „she is beautiful". Daman litla er þó æ oftar farin að láta í sér heyra. Sérstaklega er hún óþolinmóð að vera í bíl sem gerir það að verkum að okkur vex nokkuð í augum að ferðast mikið. Eins og prinsessum sæmir þá krefst hún fullrar athygli. Þegar mamma hennar situr með hana fyrir framan tölvuna snýr hún hausnum hennar að sér og segir „mamma" í ásökunartón.  Það orð notar hún reyndar yfir okkur bæði.Hún er að verða alveg rosaleg pabbastelpa svo mömmu hennar þykir held ég nóg um.

Helstu sigrar þessa daganna eru stórkostlegar framfarir að labba. Þannig gengur hún endanna á milli stoppar og snýr við oft án þess að detta. Þetta hefur í för með sér að við erum alveg  á nálum, því í húsinu þar sem við búum eru hættulegir stigar. Henni finnst mjög gaman þegar við þykjumst ætla að ná henni og æsist ótrúlega upp og hlær alveg óborganlega við það. Við erum sem sagt farin að skilja þegar fólk sagði við okkur að við værum heppin að barnið okkar væri ekki farið að labba. Þannig má segja að annað okkar er alveg bráðupptekið meðan daman vakir.

Í dag tók hún lúrinn sinn að venju og við vorum að bjástra í eldhúsinu og töldum okkur í góðum málum með vakttækið í gangi. Þegar sponsið var búið að sofa í korter heyrðum við eitthvað þrusk úr svefnherberginu þar sem hún svaf og viti menn - María mætti Hugrúnu Gyðu labbandi á miðjum svefnherbergisganginum. Við klórum okkur bara í hausnum og skiljum ekki hvernig hún fór að þessu því það er býsna hátt niður úr rúminu okkar og við vorum auk þess búin að girða hana inni í stórum koddum. Auk þess var hún búin að hella úr vatnsglasinu og taka talsvert til í svefnherberginu áður en hún kom fram.

Það merkilega er að þegar hún sefur þá geng ég stundum í hringi og veit ekki alveg hvað ég á að taka mér fyrir hendur. Þá freistast ég stundum til að kíkja á engilinn í rúminu sínu eða á myndir sem við höfum tekið af henni. Ég elska hana svo mikið og ég er þakklátur fyrir að hafa tíma til að vera með henni þó það sé hörkuvinna að vera í fæðingarorlofi.

Þorsteinn


Lane County Fair

DSC00026Ekki varð úr sundferð í dag þar sem laugin var einungis opin fyrir "lap swim"en þá getur maður synt fram og til baka í stóru lauginni. Ég notaði þó tækifærið og spurði starfskonuna af hverju heitipotturinn væri lokaður fyrir yngri en 15 ára. „Það er af heilsufarsástæðum svaraði starfskonan, börn geta ofhitnað ef þau eru of lengi í pottinum".

Við gengum að bílnum og horfðum yfir hálfmannlaust sundlaugarsvæðið, tómar barnalaugarnar og hristum hausinn. Eina sem okkur datt í hug er, að verið sé að spara starfsfólk því við 50 m laug hér standa 6 laugarverðir með kút í fanginu tilbúnir til að fyrirbyggja slys.

Við ákváðum í staðin að halda á sýsluhátíðina en árlega er haldinn mikil hátíð í Lane sýslu sem kallast Lane County Fair. Thea fræddi okkur um að það eru reknir krakkaklúbbar um alla Ameríku þar sem börnum er kennt að umgangast dýr, elda, sauma og ýmislegt nytsamlegt. Á hátíð sem þessari koma börnin svo með dýrin sem þau hafa alið og fá þau metin til verðlauna. Þarna mátti skoða heilan skála af húsdýrum, fuglum og ferfætlingum.

Á staðnum var hægt að kaupa sér fjölbreytilegan skyndibita en Thea og Jeff voru forsjál og komu með nesti. Við María svældum í okkur grískum hveitikökum með gumsi. En hveitikakan snéri sér við í maganum á mér þegar í horfði á teygjustökkstólinn skjótast upp í loft með fólk á hvolfi. Ég vonaði þeirra vegna að það væri ekki með gríska hveitiköku í maganum.

Við María röltum þarna á milli meðan Hugrún Gyða fékk sér lúr og kynntum okkar nokkra bása sem margir hverjir buðu uppá einhverja skyndilausnir fyrir heilsuna. Í einum bás var búið að tengja nokkra hausa við tölvu, mynd af heila birtist á skjánum og svo fékk fólk upplýsingar um hvað það var stressað. Þarna voru frambjóðendur með  bása og buðu upp á nammi. Lögregla og slökkvilið kynntu sýna starfsemi, hægt var að kaupa ýmiskonar handverk, fjárfesta, kaupa sér líftryggingu og myndir af fossum sem hreyfðust. Hægt var að velja milli fjölda tívolítækja en við dvöldum lengst við í tjaldi sem bauð upp á slavneska tónlist en við forðuðum við okkur þegar Skandinavíski danshópurinn mætti.

Í öðrum bás var okkur boðið að ganga í herinn. Herinn hefur uppá ýmislegt að bjóða, s.s. ókeypis menntun. Allt um það á http://www.goarmy.com/. Þetta minnir mig á áritun sem ég sá á hippa á laugardagsmarkaðinum. „War...that´s how Americans learn geography."

Hugrún Gyða mótmælti háfstöfum bílferðinni heim og var aldeilis ekki á því að leyfa foreldrunum að kaupa í matinn. Daman litla róaðist þó tímabundið þegar mamma hennar sótti innkaupakerru með gulum bíl sem hún gat keyrt á milli rekkanna.

Eldaður var „black cod" sem kom í ljós að er aldeilis ólíkur okkar íslenska þorski en bragðast þó vel í fiskisúpu.

 


Sweet Cheeks og eldamennska

Ef ég segi eins og er, þá er Þorsteinn miklu betri kokkur en ég, tja... finnst allaveIMG_4443ga mikið skemmtilegra en mér að elda mat og hefur það meira í sér. Þegar ég elda þarf ég helst að fylgja uppskriftum mjög nákvæmlega á meðan hann eldar meistararétti úr því sem til er í kotinu. Hjá okkur hafa þess vegna þróast ákveðin verkskipting á heimilinu, Þorsteinn sér nær alfarið um matreiðsluna á meðan ég sé um þvottinn. Öðru skiptum við síðan bróðurlega með okkur. Það er því ekki laust við að hnútur myndaðist í maganum á mér í gær þegar kom í ljós að húsbóndinn var orðinn rúmliggjandi með tak í bakinu. Um hádegisbil var ég strax farin að sjá fyrir mér að um kvöldið yrði bara Cheerios í matinn enda gæti ég varla eldað mikið með Hugrúnu Gyðu alfarið í minni umsjón. Það varð því verulegur léttir þegar við áttuðum okkur á því að kvöldið áður hafði Þorsteinn eldað ríflega þannig að dugði í tvær máltíðir. Ég gat meira að segja virkjað Þorstein, sem annars hafði legið í stofusófanum allan daginn, til að hita matinn upp fyrir okkur í öðrum af tveimur örbylgjuofnunum sem eru meðal margra hluta í eldhúsinu hér á Tigertail Rd.

Í dag reyndi hins vegar á mig í eldhúsinu því við vorum á leið með þremur nágrannahjónum á vínekruna Sweet Cheeks, hér rétt við bæjarmörkin. Það kom auðvitað ekki til greina að sleppa því að fara þó Þorsteini væri illt í bakinu. Hann fékk bara fleiri verkjatöflur og nóg að víni að smakka á búgarðinum ;) Á Sweet Cheeks eru ræktaðar fjórar þrúgutegundir, Pinot Noir, Pinot Gris, Chardonnay og Riesling. Í um 30 ár voru berin seld í burtu til annarra vínframleiðenda, en fyrir þremur árum ákvað bóndinn að nú væri tími til kominn að hefja eigin framleiðslu undir heitinu Sweet Cheeks Winary. Þarna er vinsælt að halda brúðkaupsveislur og aðrar einkaveislur og svo er starfræktur vínklúbbur með ýmsum uppákomum. Á föstudögum er ókeypis vínsmökkun milli kl. 18-21 og boðið upp á lifandi tónlist. Í garðinum eru mörg borð fyrir gesti og fólk getur tekið með sér mat, keypt sér vínflösku og horft á sólsetrið á þessum verulega fallega stað með frábæru útsýni. Sem sagt, frábær "pic-nic" staður.

Í kvöld var sá hátturinn hafður á að við komum öll með einhvern mat og lögðum á borð fyrir alla. Þar sem Þorsteinn er enn frá í bakinu kom það í minn hlut að útbúa eitthvað á matarborðið. Ég get nú ekki sagt að ég hafi hrópað húrra af kæti, sérstaklega þegar sólin var búin að brjótast fram úr skýjunum aftur eftir rigningu gærdagsins. En.. ég vildi nú samt standa mig gagnvart þessum góðu nágrönnum. Grænmetisbaka skyldi það vera. Aldrei slíku vant fór ég ekki nákvæmlega eftir uppskrift heldur notaði það sem til var í ísskápnum. Og viti menn: mmmm... og yamm.... var það sem heyrðist upp við Sweet Cheeks í kvöld og í annað skipti á einni viku var ég margbeðin um uppskrift af réttinum sem ég eldaði (fyrra skiptið var fyrir kjúklingaréttinn sem ég eldaði fyrir afmælið hennar Hugrúnar Gyðu).

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ég er ekki frá því að Þorsteinn sé betri í bakinu eftir heimsóknina á Sweet Cheeks!

Nóg að gera framundan. Í fyrramálið er það síðan sund með Theu, Jeff og Henry litla og Stacy, Mark og Otto litla. Á sunnudag síðan matarboð hjá Theu og Jeff með fólki sem þau unnu með á Nature Conservancy. Best að koma vel undirbúin í það!

María


Sólskynsdagar

Það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við okkur undanfarna daga og höfum við notið veðurblíðunnar í hvívetna. Fyrstu dagana eftir að krakkarnir fóru heim tókum við reyndar rólega, enda hálfgert sjokk að vera allt í einu í hljóðlátu og hálftómu húsinu. Eftir afmælisveisluna hennar Hugrúnar Gyðu höfum við hins vegar sett í okkur dálítinn kraft og farið eitthvað á hverjum degi, þ.e.a.s. lengra en út í heita pott.

Ég held að nágrannakonunni, henni Beth, finnist við svolítið skrítin. Við tökum daginn nefnilega frekar seint og erum gjarnan úti á heitasta tíma dagsins sem er um fimm síðdegis. Í gær mætti hún okkur einmitt á þeim tíma í skokkfötunum, með Hugrúnu Gyðu í joggernum, á leiðinni út að hlaupa - sem vel á minnst er ekkert grín í þessu hverfi því hér kemstu ekkert í burtu nema fara niður brattar brekkur sem þýðir að þú þarft að fara þær upp aftur! Við lögðum af stað létt á fæti og komum til baka klukkutíma síðar, með þunga fætur og salt bragð í munni. Svakalega ánægð með okkur.

Í dag fórum við á skemmtilegt svæði, eitt af mikilvægum fuglasvæðum í Oregon. Votlendissvæðið Fern Ridge Reservoir. Þar gengum við um meðal alls konar fugla og froskarnir kvökuðu og stukku út í polla sína þegar við gengum framhjá. Á bakaleiðinni mættum við gráhærðum manni með yfirvaraskegg og síða fléttu í hárinu. Við tókum tal saman og í ljós kom að hann er líffræðingur eins og við. Hann gat frætt okkur um ýmislegt varðandi lífríki svæðisins og benti okkur jafnframt á fleiri staði sem gaman er fyrir líffræðinga að skoða.

Daginn enduðum við svo á öðrum stað við sama vatn, við bátahöfnina. Þar er fínasta aðstaða til sólbaða og sundferða og skellti Þorsteinn sér til sunds í vatninu. Hugrún Gyða er hins vegar sannkölluð dama og lyfti fótunum eins hátt og hún gat þegar ég ætlaði að leyfa henni að vaða í vatninu. Henni finnst betra að vera í heita pottinum hér heima, þar æfir hún dýfurnar sínar af kappi og hefur mikið gaman af.

Næstu dagana á að vera áframhaldandi sól og við erum með ýmislegt á prjónunum til að njóta blíðunnar. Segjum ykkur frá því síðar.

María


Áttu nokkuð klink?

 

„Heyrðu félagi, áttu nokkuð klink"? Ég var á leið í útivistarbúð með fjölskyldunni þegar reffilegur kall með yfirvaraskegg kallaði til mín. Fjölskyldan var í humátt á undan mér en það var eitthvað við karlinn sem fékk mig til að stoppa þó ég hygðist alls ekki taka upp veskið og láta ræna mig eða eitthvað. Ég sagði karlinum því að ég væri ekki aflögufær. „Það var verra" sagði karl, við erum bara að reyna að komast af". Um leið benti hann á félaga sinn hinum megin við götuna. „Heyrðu en viltu ekki kaupa kíkinn minn"? Um leið kallaði hann til félaga síns og bað hann að koma og sýna mér kíkinn. Ég var nú fullur vantrausts og ætlaði mér fyrir alla muni ekki að draga upp veskið. Félagin kom hlaupandi yfir götuna og fyrr en varði hélt ég á kíkinum í hendinni um leið og ég laug að þeim að ég ætti kíki og þyrfti ekki á kíki að halda. Fyrir kurteisissakir skoðaði ég kíkinn og ég sá útundan mér áhyggjusvipinn á frúnni. „Hvaðan kemur þú" spurði maðurinn og giskaði á Þýskaland um leið. Ég sagði honum að ég væri frá Íslandi og þótti honum mikið til koma. „Ég er frá Idaho" sagði maðurinn og félagi hans kynnti sig líka og sagðist vera af ættbálki  Sioux indjána frá Montana. Ég sem er alinn upp við indíana og kúrekaleiki stóð nú loksins frammi fyrir raunverulegum indíana  Ég rétti manninum kíkinn og þakkaði boðið og sagði honum að ég vonaði að hann gæti selt kíkinn. Þeir kvöddu og veifuðu til mín brosandi. Skömm mín var stór. Það var eitthvað í fari þessara manna sem gerði það að verkum að mig dauðlangaði að gefa þeim pening eða kaupa af þeim kíkinn en lét það þó vera.

Þorsteinn


Skuggalegur maður

IMG_3870Við fengum lánaða skokkkerru fyrir Hugrúnu Gyðu um daginn, svona með þremur stórum uppblásnum dekkjum, og ég ákvað að nota tækifærið og skreppa í göngutúr meðan aðrir fjölskyldumeðlimir voru ekki heima. Um leið og komið er úr íbúðarbyggðinni sleppir gangstéttinni og maður verður að ganga á móti umferðinni. Þar sem ég var staddur í talsverðri umferð sé ég að skuggalegur maður kemur gangandi á móti mér. Maðurinn var alskeggjaður í frekar luralegum fötum og virkaði á mig eins og hann væri líklegur til alls. Þarna gengum við hver á móti öðrum og horfðumst í augu. Mér stökk ekki bros á vör og fann svitann sprett út á bakinu. Við myndum mætast innan skamms og vegna umferðarinnar var svigrúmið ekki mikið. Þegar um fimm metrar voru í slánann kallaði hann til mín. „Hey pal, this is a pretty cool stroller you have there.“ Ég svaraði að bragði: „Yeh it´s a good one“  Í því var kappinn haldinn sína leið.  Ég hef komist að því síðar að maður hittir ekki fólk á förum vegi öðru vísi en að hafa samskipti, þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur mér ekki tekist að vera fyrri til.

Eins árs

IMG_4280Sponsan okkar á árs afmæli í dag. Við fórum því í gær í þá stærstu leikfangaverslun sem við höfum komið í. Þrátt fyrir að hafa skannað búðina svona tvisvar áttum við í mesta basli með pakkann. Hugrún Gyða var reyndar sjálf mjög spennt fyrir litlum eftirlíkingum (stórum þó) af bílum sem hún gat setið í. Hún notar iðulega sitt sérstaka "brumm"hljóð sem hún myndar í kinnunum þegar hún sér eitthvað á hjólum. Við enduðum því með að velja bílhermi fyrir hennar aldur sem skvísan er bara lukkuleg með.

Deginum vörðum við í eldamennsku og bakstur en við ákváðum að bjóða nokkrum nágrönnum yfir í afmælis"dinner". Hugrún Gyða var reyndar ekki ánægð með dvöl foreldranna í eldhúsinu og lét ófriðlega nema annað okkar sæi um hana. Hún fékk því sitt hefðbundna dekur og fór t.d. með pabba sínum í heita pottinn (sem David nágranni kom og hreinsaði fyrir okkur í gær). Það fannst henni ægilega gaman og æfði sig mikið í dýfunum.

Við enduðum reyndar með allt of mikinn mat og sjáum fram á að borða lambalæri í öll mál næstu vikuna en mikil afföll urðu á eiginmönnum. Ég spurði afgreiðslumann um lambakjöt í búð einni en sá hafði aldrei smakkað lambalæri og hafði ekki hugmynd um hvar svoleiðis fengist. Ég fann þó svoleiðis á endanum og fóru lærin auðvitað í álpappír og á grillið og smökkuðust ágætlega þó amerísk væru. Reyndar stakk nýsjálenska nágrannakona mín upp á að þetta væri sauður. María kokkaði líka kjúkling sem ég hefði keypt til vara sem sló í gegn.

Afmælisbarnið naut athyglinnar og fór á kostum svo fékk hún líka nokkra fína pakka. Við sáum svo sæt föt á hana í gær svo hún var í nýjum fötum með kórónu, alger prinsessa. Hugrún Gyða er orðin býsna duglega að labba og henni finnst gaman að æfa sig. Húsið okkar hér er reyndar ekki besti staðurinn til þess þó við séum búin að girða fyrir alla stiga þá er það svo yfirhlaðið af antikmunum að það er ekki fyndið.og væri það efni í heila bloggfærslu. Við foreldrarnir njótum þess í hvívetna að hafa svona góðan tíma með sponsunni okkar og eigum ekki erfitt með að sjá hverskonar forréttindafólk við erum eða þá hún sem er alltaf í góðu skapi. Í Oregon getur mamman tekið launalaust leyfi í sex vikur en pabbinn í eina. Í nýjasta hefti National Geograpic kemur einmitt fram að Ameríka sé eina landið í heiminum (af þeim sem blaðið athugaði) fyrir utan Ástralíu sem ekki gefa fæðingarorlof á launum.

Nú er afmælisdagurinn á enda og prinsessan litla sofnuð inni í rúmi. Fyrsta árið hennar hefur liðið hratt enda hefur það verið mjög viðburðaríkt, svo margt að sjá, uppgötva, læra og gera. Það er líka ómæld hamingja sem hún hefur fært okkur foreldrunum.

Bless í bili, Þorsteinn og María


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Living in America

Höfundur

María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason
María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason

Vorum í fæðingarorlofi í Oregon í henni Ameríku í þrjá mánuði en erum nú komin heim.

 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hvíld
  • Þjónn!
  • Við gömlu brennsluofnana í Dachau
  • Í svefnskala fanganna
  • Dachau

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 15108

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband