Granítklettar, risafurur og eyðimörk

Þessi færsla er skrifuð á móteli í höfuðborg Nevada ríkis, Carson City. Það er ótrúlegt hvað landslagið er ólíkt hér miðað við hvað við höfum séð í Kaliforníu, hér erum við í hálfgerðri eyðimörk. 

Síðustu þrjá daga höfum við ekið og gengið um þjóðgarðinn Yosemite. Það eru nokkrar milljónir manns sem heimsækja Yosemite á hverju ári og þess vegna er eiginlega nauðsynlegt  að panta gistingu með löngum fyrirvara. Við megum því teljast heppin að hafa fengið gistingu við mörk þjóðgarðsins með dags fyrirvara.  IMG_0575

Það greip okkur einstök tilfinning að koma inn í og dvelja í þjóðgarðinum Yosemite því náttúran þar er ólík öllu sem við höfum hingað til kynnst. Við höfum skoðað eins mikið og hægt er að gera á þremur dögum með lítið kríli sem þarf sína tvo dúra á dag og þykist þar að auki vera orðinn of stór til að sitja í kerru og tollir bara í eina klukkustund á bakinu á pabba sínum. Í stuttu máli skoðuðum við Yosemite dalinn sem liggur miðja vegu í garðinum þangað sem meginstraumur ferðamanna liggur, þá fórum við að Glacier Point þaðan sem er stórkostlegt útsýni yfir dalinn og háa klettaveggi beggja vegna við hann. Þaðan fórum við til Wawona í sunnanverðum garðinum til  að skoða risatré sem eru stærstu lífverur jarðar að rúmmáli. Þar er einnig gömul landnemabyggð. Að lokum ókum við þjóðveg sem liggur í gegnum þjóðgarðinn frá vestri til austurs, útsýnið þar er sem kalla má “breathtaking”! Hugrún Gyða er enn ekki farin að kunna vel við sig í bílstólnum og því er það mjög dýrmæt stund þegar litla daman sofnar í bílnum. Það gerði hún einmitt í dag þegar við ókum þessa fallegu leið og til að vekja ekki stúlkuna urðum við að keyra framhjá hverju náttúruundrinu á fætur öðru – án þess að taka myndir!  

Það var afskaplega gaman að keyra suður með Kyrrahafinu frá Santa Cruz. Við heimsóttum bæ sem heitir Monterey þar sem er magnaðasta sjávardýrasafn sem við höfum augum litið, svo magnað að það er varla hægt að lýsa því í fáum orðum. Þar er líka sérlega skemmtileg fiskimannahöfn sem er gaman að spássera um. Miðbærinn er sjarmerandi og þar fundum göngugötu sem eru sjaldséðar hér í Ameríku. Selir glöddu augað er við gengum með ströndinni í þessum fallega bæ.  

Örfáum mílum sunnan við Monterey er annar afskaplega huggulegur bær sem heitir Carmel. Sá bær hlýtur að vera sumardvalastaður ríka fólksins því flestir bílar sem við sáum voru stífbónaðir Porchar, Lexusar, Benzar  Það var ekki laust við að horft væri á eftir okkur á rykugum Ford Airostar bílnum okkar. Í Carmel eru ótal litlar og krúttlegar búðir, veitingarstaðir og gallerý engin auglýsingarskilti eða merki um verslunarkeðjur. Ströndin við Carmel er ákaflega hrein og falleg en sjórinn því miður ískaldur. 

Suður af Carmel er friðlandið Point Lobos þar keyrðum við fram á tugi kafara sem voru ýmist að gera sig klára eða ganga frá. Þar er gamalt hvalveiðisafn. Við keyrðum í gegnum friðlandið með litlu dömuna sofandi en fengum okkur góðan göngutúr um fallega ströndina og ókum margar myndir.  

Syðsti viðkomustaður okkar var risIMG_0494afuruskógurinn (reedwood) í Big Sur. Við höfðum reyndar áður skoðað risafuruskóg í Herycowell state park við Santa Cruz og satt best að segja vorum við á báðum áttum hvort við ættuð að skoða fleiri risafurur en það var þess virði. Það er einstök tilfinning að standa við tré sem búið er að vera þarna í allt að 3000 ár á sama stað og standa af sér skógarelda og jarðskjálfta. Víða mátti sjá ummerki um skógarelda og virtist sem eldarnir næðu helst að grafa sig inn í tréin við ræturnar jafnvel svo djúpt að í einu tilviki gátum við staðið inni í lifandi tréi. 

Hugrún Gyða er að standa sig vonum framar í ferðinni og er óspör á skemmtiatriðin þegar hún vakir og það er gaman að fylgjast með hvað hún er fljót að bæta við sig orðum.  Í sumum tilvikum notar hún eitt orð yfir margt. Eitt kvöldið vorum við gá hvort hún væri farin að segja pabbi og bentum á hvort annað til skiptis. Þetta er mamma og hver er þetta. Svarið stóð ekki sér. Hugrún Gyða rótaði í bringuhárum pabba síns og sagði meee.  

Bestu kveðjur úr eyðimörkinni, María og Þorsteinn    

A flakki

Thvilikt astand - vid hofum varla komist neitt a netid i marga, marga daga og hofum thvi svikid ykkur lesendur godir um nyjar sogur af ferdalagi okkar.

Vid yfirgafum Santa Cruz sidastlidinn fostudag og erum nuna stodd i Yosemite thjodgardinum, sem ma segja ad se fyrsti thjodgardur sem var stofnadur i heiminum. Her hofum vid verid i tvo daga og forum a morgun, aleidis til baka til Eugene. Thar aetlum vid ad vera naestkomandi laugardag. Vid hofum gert margt skemmtilegt undanfarid, doludum okkur vid Kyrrahafsstrond, heimsottum San Francisco og aetlum ad gera margt skemmtilegt a leid okkar til Oregon, t.d. heimsaekja thjodgardinn Redwoods sem er a morkum Oregon og Kaliforniu, Kaliforiumegin.

Vid skrifum meira af okkur thegar vid komumst i betra samband, erum nuna i hotelmottokunni a tolvustandi, ekki skemmtilegustu adstaedur.

Bestu kvedjur fra okkur fra heimaslodum svartbjarna.

Maria og Thorsteinn


Haltu þig fjarri

Það kemur á óvart hvað það eru mikil spænsk áhrif hér í Kaliforníu en þau má sjá á byggingarlist og einnig eru fjölmörg örnefni á spænsku sbr. Santa Cruz og San Jose. Flest fólk í Oregon er hvítt meðan hér í Kaliforníu er allur litaskalinn. Þó svo að fólk hér sé mjög vinalegt þá upplifum við það svo að fólk í Oregon sé opnara og enn vingjarnlegra þar sem nánast allir heilsa okkur úti á götu og spjalla af engu tilefni. En aftur á móti er aðeins farið að hausta í Oregon meðan hér erum við að ganga inn í sumarið því september og október eru hér heitustu mánuðir ársins að okkur er sagt. Næturnar eru þó ískaldar hér við ströndina þannig að við höfum nú gefist upp og hitum húsið yfir nóttina svo við þurfum ekki að vakna skjálfandi. Þetta er alveg afstætt því við myndum ekki þurfa að keyra í nema 3 tíma inn í landið til að komast í 35 stiga hita.  Það er óhætt að segja að fjölbreyttur gróður og  landslag hafi orðið á vegi okkar hér í Kaliforníu og við erum að sjá trópískar tegundir sem ekki vaxa í Oregon. Það á reyndar líka við um dýralífið og erum við t.d. komin á slóðir svörtu ekkjunnar. Ég man í sjálfu sér ekki eftir að hafa verð sérstaklega hræddur við skordýr eða snáka en eftir að hafa bæði verið bitinn af maurum og stunginn af geitungum verð ég að viðurkenna að í þessu frjálsa landi eru ákveðin svæði sem eru ekki ætluð mér. Þannig geng ég ekki svo um grasflötina öðruvísi en að snákaskanna hana fyrst. Svo fær gangstéttin við hliðina á blóminu þar sem geitungarnir vinna á daginn alveg frí. Það er verra með köngulærnar því hér eitrar fólk almennt ekki fyrir dýrum eins og heima og því er það daglegt brauð að ganga inn í köngulóarvefi þrátt fyrir að ferðir mínar hafi hingað til takmarkast af manngerðum stígum og götum. Önnur svæði sem eru okkur alveg fráboðin eru einkalóðir. Í Ameríku er allt fullt af þeim og þar með eru heilu landsvæðin lokuð almenningi því hér er almannaréttur á frekar lágu stigi miðað við á Íslandi. Ef það er ekki dýrvitlaus hundur sem passar upp á eignina þá má búast við vopnuðum eigandanum ef maður vogar sér inn á þessi svæði. Þetta finnst mér stór galli í annars ágætu landi verandi vanur að vappa þangað sem nefið snýr heima á Íslandi. Þorsteinn

Afi skal hann heita

Til að vita hvað við ættum helst að skoða hér í Santa Cruz fórum við á upplýsingaskrifstofu ferðamanna. Eitt af því sem var nefnt er Beach Boardwalk. Þangað fórum við í dag. Ég var búin að sjá fyrir mér timburpalla meðfram ströndinni en ónei, þarna er um að ræða nokkuð stóran skemmtigarð, svona hálfgert tívolí með ótal rússíbönum, hringekjum, Casino o.fl. og auðvitað endalausum sjoppum þar sem hægt er að kaupa popp, franskar, ís, sleikjó og alls konar óhollt góðgæti. Vel að merkja, þessi staður á sér hundrað ára sögu einmitt á þessu ári! Reyndar er kominn september og mesti túristatíminn búinn þannig að það voru ekki svo margir þarna í dag og öll tæki lokuð, en það er vel hægt að ímynda sér hvernig mannlífið blómstrar þarna á góðum degi.

Eftir göngutúrinn um skemmtigarðinn ákváðum við að skoða miðbæinn sem er nokkuð huggulegur með ótal kaffihúsum þar sem hægt er að sitja úti. Við ákváðum að fá okkur bita á einum staðnum en sátum reyndar inni því það var frekar kalt í dag, reyndar heiðskýrt en hífandi rok þannig að hárið á mér er eins og gaddavír eftir blásturinn.

Annars verð ég að nefna eitt sem stemmir ekki alveg, þetta með þegar Þorsteinn var beðinn um að sýna skilríki í Safeway. Hún Hugrún Gyða er nefnilega búin að meta það svo að Þorsteinn skuli kallast "Afa"!!

Bestu kveðjur af bókasafninu í Scotts Valley,

María


Sandur á tánum

IMG_0193 

Ferðin hingað til Santa Cruz gekk stórslysalaust. Að vísu sprakk á bílnum á hraðbrautinni svolítið fyrir norðan Sacramento og kom stórt gat á dekkið þannig að vírarnir stóðu í allar áttir. Þetta átti sér nokkurn aðdraganda því bíllinn var búinn að mótmæla hraðanum um skeið og hristist og skjögti. Við enduðum hinsvegar með nýtt dekk og bíllinn varð mun skemmtilegri í akstri á eftir.

Hugrúnu Gyðu leið greinilega betur þennan seinni ferðadag því hún var alveg eins og ljós á leiðinni og svaf tvo langa dúra foreldrunum til mikillar ánægju.

Það var ákaflega gaman að keyra suður til Kaliforníu því landslagið sem við sáum á leiðinni er allt annað en það sem við höfum séð áður. Hitinn inn til landsins fór mest í 37 gráður á leiðinni, þar var ísstopp. Við vorum búin að vista leiðarlýsingu úr Google Earth sem kom sér vel því við gátum nánast keyrt beina leið að húsinu í Santa Cruz.

Það væsir ekki um okkur hér. Húsið er afskaplega fallegt, bjart og hreint með nýjum harðviðargólfum en ekki hnausþykkum gólfteppum eins og hér tíðkast víða. Það stendur á stórri landareign með talsverðum skógi með rauðvið og douglas furu. Í garðinum höfum við séð allskonar fugla, meðal annars kólibrífugla, á grasflötinni heldur til garðsnákur og í morgun var þar kanína á beit.

Það er aðeins 10 mínútna akstur niður að ströndinni sem við heimsóttum einmitt í gær. Hugrúnu Gyðu leist nú ekki á blikuna til að byrja með þegar hún var tekin úr skóm og sokkum og boðið að ganga berfætt í sandinum. Hún ríghélt þá í læri mömmu sinnar, lyfti fótum og reyndi að dusta sandinn af tánum. Það leið þó ekki á löngu þar til hún sætti sig við þessar nýju aðstæður þó henni þættu þær greinlega dálítið skrítnar. Hún var bálhrædd þegar öldurnar komu nálægt enda ekki skrítið því hún rennblotnaði í einu aðfallinu. Við reyndum ekkert að synda í sjónum því hann er ískaldur og örugglega fullur af stórhættulegum villidýrum. 

Á leiðinni heim ákváðum við að fara á veitingastað hér í nágrenninu, enda hefur hingað til gengið mjög vel að fara með Hugrúnu Gyðu á slíka staði. Í gær varð þó undantekning þar á því litla ljúflingsrófan okkar ákvað að prófa raddböndin vel og rækilega með öskrum og að sitja kyrr í barnastólnum var ekki möguleiki heldur hafði stúlkan mestan áhuga á að þramma um veitingastaðinn ýtandi stól á undan sér. Við skiptumst því á að borða í flýti og okkur var ekki boðið að kíkja á desertmatseðilinn!

Það var því ekki hægt annað en að kíkja við í Safeway til að kaupa ísinn og þar sem við vorum þar var mjög hentugt að kippa með sér einni bjórkippu. Nema hvað... haldið þið ekki að Þorsteinn hafi verið beðinn um skilríki við kassann, 41 árs gamall maðurinn!! Sá varð hissa -

Við munum búa hér í Santa Cruz til 24. september þá er planið að fara í þjóðgarðinn Yosemite og vera þar í nokkra daga áður en við keyrum upp ströndina og kíkjum á Redwoods þjóðgarðinn. Til að byrja með stefnum við á að fara í dagsferðir héðan og auðvitað skoða Santa Cruz í þaula. Við verðum ekki í stöðugu netsambandi meðan við dveljum hér en það er búið að benda okkur á nokkra staði þar sem við getum tengst netinu, erum t.d. stödd í bókasafni núna.

Bestu kveðjur í bili,

María og Þorsteinn

 

 


Greiði fyrir greiða

Nú erum við stödd á Finlandia Motel í Mt. Shasta City í Norður-Kaliforníu, gistum þar á leið okkar til Santa Cruz sem er í um klukkustundarfjarlægð suður af San Fransisco. Þar ætlum við að dvelja næstu 2 vikurnar eða svo!

Málin æxluðust sem sagt þannig að á föstudaginn komu væntanlegir leigjendur að skoða húsið á Gimpl Hill Rd., hjón með fjögur börn á aldrinum 4-13 ára. Þau eru að flytja frá Santa Cruz til Eugene. Þau yfirgáfu hús sitt eins og það stendur með öllu innbúi, settu það á sölu og hafa búið á hóteli meðan þau leituðu að leiguhúsnæði. Eftir stutt spjall var málið klappað og klárt, við myndum gera þeim þann greiða að flytja úr húsinu í dag og láta þeim það eftir en í staðin fengjum við húsið þeirra í Santa Cruz. Svona geta hlutirnir verið einfaldir!!

Við höfum ekki átt til orð svo hissa höfum við verið á því hvað fólk er almennilegt hér. Þarna hittum við fólk sem innan fimm mínútna var búið að bjóða okkur að dvelja í húsi sínu okkur að kostnaðarlausu. Ég ræddi þetta við T.J. vinkonu okkar í dag og þetta kom henni ekki á óvart. Hún sagði að fólk hér á vesturströndinni væri yfirleitt mjög afslappað og frjálslegt, það væri einfaldlega þannig að þú treystir náunganum þangað til annað kemur í ljós.

 

Ferðalagið frá Eugene til Santa Cruz tekur um 11 klst og vegna þess hvað Hugrúnu Gyðu leiðist í bíl ákváðum við að gista a.m.k. einu sinni á leiðinni. Ferðalagið í dag var reyndar óvenju erfitt. Litla músin svaf bara í einn tíma og öskraði í fjóra, eða svona næstum því. Hún var sérlega illa upplögð enda að jafna sig eftir lasleikann síðustu dagana. Þetta var sem sagt ekki tanntökuhiti sem hún var með heldur fékk hún mislingabróður. Nú er hún orðin hitalaus en komin með útbrot um allan búk og smávegis í andlitið, það á að jafna sig á 2-3 dögum. Það getur vel verið að við gistum aðra nótt á leiðinni til að auðvelda henni ferðalagið.

Spennandi dagar og vikur framundan hjá okkur. Staðsett á miðri Kaliforníuströnd og margt að sjá og skoða. Látum ykkur fylgjast með!

Kveðja, María


Nýjar tennur og hættuleg skordýr

Síðustu daga höfum við að mestu verið í rólegheitunum hér á Gimpl Hill. Hugrún Gyða er að taka fjórar nýjar tennur og er búin að hafa hita í fjóra daga. Hún hefur því hvorki sofið vel að degi né nóttu. Eftir að hafa fengið hitalækkandi og einhverjar töfratöflur við tanntöku er hún nú orðin frísk. Sjálfur er ég rétt að jafna mig á þriðja skordýrabitinu. Að þessu sinni stakk geitungur mig í handlegginn þegar ég var að teygja mig eftir peru í perutréi með þeim afleiðingum að hann blés upp eins og gúmmíhanski. Til að flýta fyrir bata fór ég á slysavarðstofuna. Eftir hálftíma bið komst ég í viðtal við konu sem mældi þyngd, blóðþrýsting og spurði ótal spurninga um heilsufar, eða eins og hún orðaði það: „Ég er að athuga hvort þú ert nokkuð að deyja." Eitthvað fannst konunni ég tæpur því hún setti mig í forgang, sagðist ekki vilja vera ábyrg fyrir því að handleggurinn spryngi á biðstofunni. Þá tók við önnur hálftíma bið áður en ég hitti doktorinn sem skrifaði síðan uppá stera og sýklalyf.  

Þessi skemmtilegheit urðu þó ekki til að koma í veg fyrir að við skelltum okkur á hafnarboltaleik með Jim og Camille. Það er miklu minna umstang í kringum hafnarboltann hér í Eugene heldur en ameríska fótboltann. Leikurinn var haldinn á hverfisvelli hér í nágrenninu og þetta var bara nokkuð kósí stemmning þar sem heimaliðið beið ósigur fyrir gestunum frá Salem.

Þar sem Hugrún Gyða vakanði frísk í morgun eftir erfiða nótt þá ákváðum við að fara í bæinn því nú er yfirstandandi svoköllluð Eugene hátíð sem á sér 25 ára langa hefð og byrjar með skrúðgöngu sem ótrúlega mikið er lagt í þar sem eru síðan krýnd snígladrottning. Í rauninni er hér á ferðinni útvíkkun á laugardagsmarkaðinum nema að maður borgar sig inn. Til viðbótar eru mörg tónlistaratriði og kvikmyndir sem hægt er að sækja en við létum duga að hlusta á eina grúbbu. Svo litum við líka við á laugardagsmarkaðinum og horfðum á magadans. Við erum búin að vera hér það lengi að við erum farin að þekkja fólk þegar við förum í bæinn. að þessu sinni hittum við Theu og Jeff og borðuðum með þeim hádegismat.

Annars eru  breytingar hjá okkur í vændum því við erum að flytja út úr gamla húsinu á Gimpl Hill á morgun sunnudag og munum ekki koma til  baka. Þetta kom mjög snögglega uppá en meira um það í næstu bloggfærslu.

Tatata tamm.

Þorsteinn


Viltu láta plasta þig þegar þú deyrð?

Ég var hvattur til að íhuga þennan kost þegar ég heimsótti sýninguna Body World 3 í OMSI (Oregon Museum of Science and Industry) í Portland. Á sýningunni eru sýndir líkamar eða líkamshlutar sem bw3-753491fólk, alls um 120 manns, hefur gefið safninu áður en það dó. Nú er ekki svo að skilja að þarna hafi verið lík til sýnis, tilfinningin fyrir dauðanum var þarna víðs fjærri. Líkamarnir hafa verið meðhöndlaðir með ýmsum hætti af vísindamönnum safnsins, allt eftir því hvert markmiðið með hverjum líkama eða líkamshluta er. Í öllum tilvikum hefur mannslíkaminn þó verið meðhöndlaður þannig að á endanum stendur eftir plastaður líkami eða líkamshluti sem unnt er að varðveita um ókomin ár og í öllum tilvikum er fólkið óþekkjanlegt. Helsti tilgangurinn með þessu er að gera líffæri og líkamsbyggingu mannslíkamans sýnileg og það verð ég að segja að það tekst mjög vel á sýningunni. Því miður eru myndatökur ekki leyfðar þar en ég hvet ykkur til að kynna ykkur heimasíðuna  http://www.omsi.edu/visit/featured/bodyworlds/. Sjón er sögu ríkari.

Dæmi um það sem við sáum á sýningunni er maður sem heldur á húð sinni í annarri hendinni, eftir standa vöðvar og taugar. Við hverja stöð er hægt að hlusta á fróðleik um það sem fyrir augu ber í heyrnartólum.  Í mörgum tilvikum var búið að opna inn í brjósthol þannig að líffæri voru sjáanleg í öðum tilvikum meltingarvegur eða blóðrásarkerfi. Í einu tilviki er fótur til sýnis nema að það eru einungis æðarnar í fætinum, búið að hreinsa allt annað í burtu. Þarna eru sýnd um 50 fóstur, öll mismunandi gömul, það elsta að því komið að fæðast. Við sáum lungu reykingarmanns til samanburðar við lungu heilbrigðs manns, þar var bókstaflega verið að bera saman svart og hvítt. Margir safngestir notuðu tækifærið og skyldu  sígarettupakkana sína eftir í þar til gerðu boxi við sýningarbásinn. Í einum ramma var þunnt þversnið af mjög feitri manneskju þar sem sást hvernig fitan umlykur öll líffæri, þekur æðaveggi og svo auðvitað utan á viðkomandi.

Margir listamenn sögunnar hafa reynt að endurskapa manninn í list. Þarna er búið að hlutgera raunverulegt fólk með listalega fallegum hætti þó gjörningurinn hljóti að kveikja margar siðferðislegar spurningar.

Einhvernvegin fékk ég mig nú ekki til að ráðstafa búknum.

 

Þorsteinn


Ruðningsboltavertíðin hafin

Í gær, laugardag, skelltum við hjónin okkur á fyrsta ruðningsboltaleik vertíðarinnar hér í Eugene, heimaliðið Oregon Ducks á móti Houston Cougars. Við keyptum miðana með margra vikna fyrirvara og var full þörf þar á, því þó leikvangurinn rúmi 60 þúsund manns var hvert sæti þéttskipað. Við vorum samferða Jim og Camille og tókum strætó því það er ekki nokkur leið að fá bílastæði við leikvanginn nema mæta þar snemma morguns og fyrirtæki í nágrenninu selja stæði á uppsprengdu verði. Við skynjuðum strax mikla stemningu í strætó, allstaðar var fólk klætt í gul eða græn föt, liti liðsins, og við götur voru gular og grænar blöðrur og fánar alveg að leikvanginum Autzen Stadium. Jim og Camille höfðu fært okkur stuðningsmannaboli að gjöf sem við skörtuðum þennan dag og féllum því vel í hópinn. Auk þess fékk María gula og græna perluhálsfesti sem Hvert sæti þétt skipaðtíðkast að konur kasti frá sér þegar liðið skorar. Á bílastæðunum framan við Autzen Stadium höfðu þeir sem mættu snemma komið sér vel fyrir með gasgrill og bjór og við skelltum okkur á eina slíka samkomu með hjónunum.

Fyrir leikinn stakk Camille upp á að við skiptum liði í fyrri hálfleik, þannig að við Jim myndum sitja saman í þeirra sætum svo Jim gæti útskýrt fyrir mér reglur leiksins á meðan þær María sætu í okkar sætum og gætu rætt um tísku og uppskriftir. Það var gríðarlega mikið að gerast hjá áhorfendum og hávaðinn í stuðningsmönnum Oregon Ducks var gríðarlegur, uppblásnir plastboltar og hálsfestar flugu manna á milli og það var hrópað og kallað. Það var þó frekar erfitt fyrir nýgræðinga eins og okkur að átta sig á því sem fram fór á vellinum og ætla ég ekki að reyna að útskýra leikinn enda skildist mér á mönnum sem þarna koma reglulega að þeir séu enn að læra (líklega sagt fyrir kurteisissakir). Þar sem við sátum beint fyrir ofan og býsna nálægt klappstýrunum snotru sem skemmtu áhorfendum með dansi og fjöllistum þurfum við (lesist ég) ekki að láta okkur leiðast. María naut þess að horfa á fótboltakappana og mig minnir jafnvel að hún hafi nefnt að ég þyrfti að fá mér svona búning.

Leikurinn endaði 48-27 fyrir Oregon Ducks gegn Huston Cougars (nema það hafi bæst við stig eftir að ég tók mynd af skjánum). Þetta var sérlega skemmtileg upplifun en hetja dagsins í mínum huga var litla prinsessan sem var í 5 tíma pössun og stóð sem með prýði.

Þorsteinn


Fólkið á götunni og hverfandi menning

Næsti áfangastaður okkar í ferðalaginu var borgin Portland í Oregon. Okkar fyrsta verk var að panta okkur gistingu og enn og aftur kom Lonely Planet að góðu gagni. Í  þetta skiptið gekk okkur öllu betur að finna mótelið, sem er vel staðsett nálægt miðbænum - nýuppgert, snyrtilegt og hreint.

Portland stendur við Willamette River, rétt eins og Eugene (þar sem við búum), hún er falleg, nýtískuleg borg. Við áttuðum okkur fljótlega á því að hér væri margt að skoða og ákváðum að dvelja tvær nætur. Við vorum bæði spennt að skoða OMSI (Oregon Museum of Science and Industry) og lögðum okkur því fram um að svæfa Hugrúnu Gyðu áður en haldið var þangað inn. Á safninu eru til sýnis plastaðir líkamar og líkamspartar. Þetta var ótrúleg upplifum og efni í heilan pistil alveg á næstunni. Um kvöldið snæddum við að veitingarstað sem flýtur á Willamette ánni. Við gengum um japanska garðinn en þó hann væri svo sem snotur þá var varla þess virði að greiða aðgangseyri þar, sé fyrir mér að garðurinn sé fallegri á vorin. Í framhaldinu önduðum við að okkur rósailmi í rósagarðinum en Hugrún Gyða er vön að sökkva sé ofan í blóm og í kjölfarið kemur hressandi ahh hljóð, sem vekur stundum kátínu viðstaddra. Í Portland er bókabúð á þremur hæðum sem við þræddum í leit að myndabók um Ísland en við fundum aðeins risastóra bók eftir útlendan

Í mat

höfund. Höfðum hugsað okkur að byrgja okkur upp af gjöfum. Það var átakanlegt að ganga um eldri hluta bæjarins þar sem neyðarhjálp fyrir heimilislaust fólk er til húsa. Þar þræddum við okkur í gengum hóp um 200 manns sem beið þess að staðurinn yrði opnaður, hvarvetna í kring voru bæli undir berum himni sem fólkið hélt til í. Þau eru misjöfn gæðin í þessum heimi.

Frá Portland ókum við austur með Colombia River, með Washington fylki handan árinnar. Við höfðum hugsað okkur að staldra við Multnomah fossa, sem eru næsthæstu fossar Ameríku, um 620 fet, en þar sem Hugrún Gyða svaf afar vært í bílstólnum sínum á þeirri stundu sem við vorum þar, létum við okkur nægja að sjá þá út um bílgluggann á bílastæðinu (roðn... ég veit að svona skoðar maður ekki hlutina.... það er bara heilög stund þegar Hugrún Gyða sefur í bílnum). Við stoppuðum í staðin í bæ sem heitir Hood River, skemmtilegum bæ sem stendur við ármót Hood River og Colombia River. Þar gengum við um götur, versluðum svolítið í kajakbúð bæjarins og fengum okkur dýrindis espresso .

Nú vorum við vel vakandi og tilbúin að fara að Mt. Hood (3.429 m), hæsta fjalli Oregon. Það var búið að benda okkur á að við yrðum að skoða Timberline Lodge, sem er risavaxinn skáli byggður á kreppuárunum 1936-1938. Skálinn er glæsilegur á nútímamælikvarða og er byggingarefnið timbur og grjót úr fjallinu. Skálinn er rekin sem hótel og við vorum heppin þar sem það var laust herbergi og fengum svona last minute díl. Snæddur var Vísundur og fashani á einum flottasta veitingastað sem við höfum farið á hér í landi, Cascade Dining Room í Timberline Logde. Verð þó að segja að ég hefði getað gefið góð ráð varðandi matreiðsluna á fashananum. Í Mt. Hood er skíðað árið um kring og það var hin undarlegasta sjón að sjá skíðafólk spranga um í skíðaskónum á funheitum sumardegi. Okkur var sagt að hingað kæmi fólk hvaðanæva að til að stunda skíðaíþróttina þegar snjólaust er annarsstaðar. Við veltum því fyrir okkur hvar í fjallinu fólkið skíðaði því snjórinn er þannig lagað ekkert svo ýkjamikill að okkar mati. En svo sáum við það, fullt af litlum punktum ofarlega í fjallinu, í snjóskafli sem kannski hefur 100 m á hvern kant! Eftir sundsprett og góðan svefn gengum við um hlíðar fjallsins nokkurn vegin laus við tré (ok sakna Íslands smá) Þarna var ákaflega fallegur gróður en einnig er mikið rof trúlega vegna snjóleysinga

Ókum í framhaldinu í gengum indíánaverndarsvæðið Warm Springs og stoppuðum í bænum. Indíánar hafa ákveðna sjálfstjórn innan verndarsvæðanna og þar eru í gildi sérstök lög. Okkur er t.d. aðeins heimilt að aka um aðalvegi innan svæðisins. Hér í nágrenninu er talað um að þeir komist upp með margt sem hvítir Ameríkanar komast ekki upp með. Ástandið í Warm Springs var ekki til að hrópa húrra fyrir allt mjög ósnyrtilegt, sorphirða í miklum ólestri og haugar af drasli við mörg hús. Stirðnaður hundur lág á hvolfi í göturennunni. Margar spurningar vöknuðu hér. Okkur virtist að fólkið þarna væri ekki til stórræðna. Kannski hefur ríkisstjórninni  tekist fullkomlega ætlunarverk sitt að brjóta niður allan mótþróa frá þessum ættbálkum með því að koma þeim fyrir í litlum hópum og meina þeim að tala móðurmál sitt með þeim afleiðingum að núlifandi kynslóðir eru í fæstum tilvikum talandi upprunalega móðurmálið. Við skoðuðum athyglisvert en sorglega rýrt safn um forna menningu indíana . Ég lík þessum pistli  með lauslegri þýðingu á texta úr safninu um villta uppskeru:  

„Náttúrulegar fæðuauðlindir voru svo ríkulegar og svo vel þekktar að landbúnaður var ónauðsynlegur. Gnægð af rótum, hnetum og fræjum og öðrum plöntum voru uppistaða í næringarríkum matseðli. Í höndum vefarans urðu plöntustönglar af sterklegum og fallegum körfum. Margar rætur og plöntur voru okkur mikilvæg lyf.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Living in America

Höfundur

María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason
María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason

Vorum í fæðingarorlofi í Oregon í henni Ameríku í þrjá mánuði en erum nú komin heim.

 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Hvíld
  • Þjónn!
  • Við gömlu brennsluofnana í Dachau
  • Í svefnskala fanganna
  • Dachau

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband