25.7.2007 | 07:15
Nágrannar
Þeir sem hafa horft á þættina Aðþrengdar eiginkonur kannast við að í týpískri smágötu í amerísku samfélagi þekkja allir alla og ef nýr íbúi flytur í hverfið er vel tekið á móti honum. Tigertail Road í Eugene er lítil botlangagata í frekar fínu hverfi og íbúar götunnar eru með eindæmum almennilegir. Tveimur dögum eftir að við komum til landsins var haldin sérstök grillveisla okkur til heiðurs þar sem allir næstu nágrannar okkar buðu okkur velkomin í hverfið, sem við erum nú flutt í. Okkur var í snarhasti reddað öllu því sem okkur vanhagaði um, eins og barnarúmi, kerru og fleiru. Önnur 18 ára tvíburasystirin úr húsinu á móti tók unglingsbörnin okkar að sér og leiddi þau um næsta nágrenni þannig að þau komu upprifin til baka. Við fórum heim úr veislunni stútfull af hugmyndum hvað hægt er að gera hér um slóðir og með fullt af símanúmerum sem við eigum að hringja í af minnsta tilefni.
Nú erum við orðin íbúar í þessari skemmtilegu götu, fluttum inn í fyrradag. Í morgun um 10-leytið hitti Þorsteinn hann David, manninn hennar T.J., hér úti á götu (hjónin sem leigja okkur "vaninn" sinn), og þau hjónin eru nú búin að bjóða okkur í kvöldverðarboð annað kvöld. Krakkarnir mega koma með sundföt ef þau vilja kasta sér í sundlaugina.
Í gær og í morgun fylgdist Þorsteinn með henni Beth í húsinu á móti, þar sem hún stritaði við hellulögn. Hann, sem er vanur hellulagningarmaður, átti mjög bágt með sig bæði held ég með að sjá hana gera ýmsar vitleysur en aðallega held ég honum hafi þótt erfitt að sjá konuna erfiða svo mikið. Einhvern tímann um hádegisbil, þegar ég hélt að Þorsteinn væri úti að þvo bílinn, var mér litið út og sé þá ekki manninn minn og Narfa berfætta á hnjánum í sandinum hjá Beth komnir í hellulögn. Dagsverkið hennar var klárað á svipstundu og mátti sjá hana dást að stéttinni sinni og til allan daginn. Þeir feðgar hafa því nú þegar öðlast gott orðspor og eru án efa umtalaðir í götunni og feðgarnir fengu útrás fyrir nágrannakærleikanum. Okkur er boðið í mat til Beth og Steve á föstudagskvöldið.
Ekki nóg með það, um þrjúleytið í dag var svo þriðja matarboðið í höfn, því Kathi og Dick, hjónin sem leigðu okkur húsið sem við bjuggum í fyrstu tvær vikurnar eru búin að bjóða okkur í mat á fimmtudagskvöld.
Það er ekki laust við að maður hafi móral yfir því að þekkja aðeins örfáa nágranna í götunni okkar heima á Íslandi.
María
Um bloggið
Living in America
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég vona samt ykkar vegna að lífið í þessari götu sé ekki jafn fjörugt og í Aðþrengdum eiginkonum
Svava S. Steinars, 26.7.2007 kl. 13:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.