28.7.2007 | 07:31
Eugene
Eugene er þriðja stærsta borgin í Oregon og þar búa um 130.000 manns. Borgin stendur við ána Willamette. Auðvelt er að rata um borgina því 1. stræti er við ána og svo tekur við hvert númeraða strætið á fætur öðru til suðurs. Þvergöturnar hafa allar nöfn. Flestar götur í borginni eru einstefnugötur en hægt er að aka í báðar áttir um þær stærstu. Þetta á við um miðbæinn. Umferðarmannvirkin eru býsna flókin og plássfrek þegar nær dregur hraðbrautunum og þá er ekki ónýtt að hafa góðan kortalesara þó það dugi ekki alltaf til. Í köntuðum bænum er ógrynni af verslunum, matsölustöðum og stórmörkuðum og engin leið er að skilja hvernig þeir geta allir borið sig, flestir opnir frá árla morguns til miðnættis. Vöruúrvalið er endalaust og verðið hagstætt eins og nærri má geta en það er býsna tímafrekt að detta inn í stórmarkað. Þessi bær ber síðan til viðbótar þrjú "moll" sem ég hef alveg látið aðra fjölskyldumeðlimi um að skoða fram að þessu.
Það vakti strax athygli okkur að við fjölmörg gatnamót við miðbæinn situr fólk misjafnlega illa til fara með handskrifuð pappaspjöld, venjulega með fyrirsögninni HELP - homeless. Sömu einstaklingarnir sitja á sama stað dag eftir dag og betla. Við höfum þó enn ekki séð neinn veita þessu fólki athygli. Okkur er þó sagt að margir safnist saman á kvöldin og deili með sér feng dagsins. Þannig virðist vera til samhjálp aumingjana sem kerfið styður ekki. Hvað fær fólk til að sitja undir heitri sólinni dag eftir dag á sama horninu?
Margir hér hafa lúsarlaun eða um 7 dollara á tímann (ca. 350 kr). Á þessum launum er ekki unnt að framfleyta fjölskyldu og ekki hægt að kaupa sér lífeyristryggingu. Lífeyriskerfið hér var áður þannig að fyrirtækin borguðu lífeyristryggingu fyrir starfsfólkið meðan það var í vinnu en nú hefur það þróast í þá átt að sjálfstæðir sjóðir sem fyrirtækin og fólkið sjálft greiða í, borga lífeyrinn. Algengt er að fólk fari á eftirlaun 65 ára og þá fyrst getur það fengið greitt úr eftirlaunasjóðum. Þeir sem fá lægstu launin hafa þó enga lífeyristryggingu. Ef fólk verður atvinnulaust fær það greiddar lágmarks atvinnuleysisbætur í mesta lagi sex mánuði. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að fá vinnu hér - ef þú hefur rétta menntun - en guð hjálpi þér ef þú hefur hana ekki.
Mér skilst að félagslega kerfið styðji ágætlega við bakið á fötluðu fólki og gömlu ef það er tengt við einhvers konar stofnanir en líkt og heima getur lyfjakostnaður og endurteknar læknaheimsóknir verið þessu fólki þungur baggi. En félagslega kerfið er ekki að virka! Bandaríkjamenn greiða hvað mesta allra þjóða í heilbrigðiskerfið á íbúa en heilsufar íbúa er lakt í samanburði við aðrar þjóðir. Ég ræddi við nágranna minn sem vinnur á vefjarannsóknarstofu spítalans um hormóna í kjöti. Ég sagði honum að það væri altalað á Íslandi að ein ástæða fyrir offitu bandaríkjamanna væri hormónaleyfar í kjöti. Þetta kom honum mjög á óvart og hann sagði að mörg ár væru síðan að bannað var að nota slík lyf í landbúnaði og menn væru mjög strangir í sambandi við lyfjanotkun. Hver veit, en afturendinn á mörgum hér er að minnsta kosti ekki í nokkru samræmi við aðra hluta líkamans.
Það er mikil vakning í lífrænum mat Viðskiptasíður blaðanna birta fréttir um að lífræn matvæli séu arðbær framtíðargrein og fjölbreytt úrvalkið í stórmörkuðunum ber þess merki. Verðið er vel samkeppnishæft við önnur matvæli og því njótum við þess að kaupa lífrænt í kroppinn á okkur - að minnsta kosti í bland.
Stærstu vinnuveitendurnir hér í Eugene eru háskólinn University of Oregon", spítalinn og starfsemi tengd honum. Hyundai er hér með mikla starfsemi og annað fyrirtæki framleiðir hverskonar húsbíla og hjólhýsi. Einn stærsti vinnuveitandinn er verksmiðja sem framleiðir íhluti í tölvur. Sú hefur nýlega sótt um leyfi til yfirvalda til að fá að auka útblástur á mengandi efnum. Íbúar í nágrenni eru órólegir yfir þessu enda hefur verksmiðjan smám saman verið að færa út kvíarnar en mörg vatnsból á svæðinu eru þegar menguð af einhverjum orsökum.
Þorsteinn
Um bloggið
Living in America
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ.
Þá er ég og mínir komnir til byggða - í bili! Áttum frábæra daga á fjöllum, já og líka á flandri um landið. Nú er að þvo bæði fjölskyldumeðlimi, fatnað og farartækið....svona rétt áður en lagt verður aftur í hann :)
En mikið sem það er gaman að lesa ferðasöguna hjá ykkur. Ekkert spes að villast í þessum fja%&$%# skógi! En gott að allt gekk upp á endanum :)
Ég sé líka þetta "götu-líf" alveg fyrir mér, einmitt eins og mín reynsla er af amerískum úthverfum. Já nú er að sjá hvernig þeim amerísku líkar dvölin á Íslandi. Mætti þeim amk í gær á þrusu siglingu á Skeiðarársandi á leið í austur. Ég vona að þau eigi eftir að njóta daganna vel. Þau fengu amk helli dembu á sig í gær og brakandi sól inn á milli. Ekta íslenskt ferðaveður, ekki satt :)
Nóg í bili - ég mun bæta þessari síðu inn í mína daglegu blogg-rútínu :)
Bið að heilsa öllum
Gurra
Gurra (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.