2.8.2007 | 06:43
Útilega í Mið-Oregon
Bíllinn þeysist áfram um gróðursælan og skógivaxinn dalinn þar sem McKenzie áin, ein helsta fluguveiðiá Oregon rennur um dalbotninn. Sólin skín í gegnum trjátoppana og sendir geisla sína inn í bílinn svo loftkælingin þarf að vera stillt í botn. Bíllinn stappfullur, fólkið fyrst og kíttað í með farangri því Beth og Steve, fólkið í húsinu á móti, lánaði okkur viðlegubúnaðinn sinn, uppblásnar lúxusdýnur, aukatjald fyrir strákana (vorum með okkar eigið líka) og svefnpoka fyrir alla fjölskylduna, ekki þessa litlu nettu eins og við eigum heima, heldur volduga poka af stærstu gerð. Að auki er í bílnum gúmmíbáturinn hans Jims, bakpokinn fyrir Hugrúnu Gyðu og joggerinn, þriggja hjóla kerra prinsessunnar.
Við ökum áfram í austurátt og sækjum á brattann. Nú förum við að sjá hraun, alveg eins og þetta sem við þekkjum heima, svart og úfið. Það sem er þó öðruvísi en heima er skógurinn, risavaxin trén, sem rísa upp úr hrauninu. Eftir smá stund breytir skógurinn heldur betur um svip og verður sótsvartur en ótrúlega víðáttumikil flæmi urðu skógareldi að bráð árið 2003 eða rúmlega 90 þúsund ekrur.
Við hugsuðum okkur áður en við lögðum af stað að þetta yrði hálfgerð lúxusútilega. Við myndum ekki taka mikið nesti með okkur heldur kaupa matinn á staðnum. Við sáum fyrir okkur grasi gróna bala þar sem Hugrún Gyða gæti tiplað um á tánum, fína snyrtiaðstöðu og svo fram eftir götunum. Við höfðum nefnilega heyrt að í Ameríku væru ein flottustu tjaldsvæði sem fyrirfinnast. En í staðin fyrir kælandi sturtu og græna grasbala sem við vonuðumst eftir á Camp Sherman, fyrri gististaðnum okkar, biðu okkar kamar með sinni hefðbundnu lykt og þurr moldar/malartjaldstæði. Hverju tjaldstæði fylgdi síðan eldstæði sem voru óspart notuð að tjaldgestum, þrátt fyrir að hætta á skógareldum væri "high". Lyktin var megn og ég er ekki frá því að nefskíturinn morguninn eftir hafi verið svartur. EN, svæðið undur fallegt og gaman að ganga með Metolius River, sem er jafnvel enn betri fluguveiðiá en McKenzie River. Enda klæjaði mínum manni í fingurnar og langaði mikið að prófa veiðigræjurnar hans Jims sem meira að segja voru með í bílum en því miður hentaði ekki alveg skipulaginu enda margt sem þurfti að skoða.
Næsta dag var haldið af stað, enn lengra í austur. Við ókum í gegnum Sisters, skemmtilegan bæ í dálitlum "cowboy" stíl, skelltum okkur til sunds í á einni rétt hjá Redmond og fórum að Smith Rocks sem minna á klettafjöllin. Við gistum á tjaldsvæði sem heitir LaPine og þar var hægt að komast í sturtu. Hins vegar var verra með matinn. Við ákváðum nefnilega að koma upp tjaldi fyrir myrkur og fá okkur svo að borða. Eftir að tjaldið var klárt ákvað Þorsteinn að fara með strákunum til að ná í mat 40 km leið og við Una Björg og Hugrún Gyða urðum eftir. Þegar búið var að gefa litlu ponslunni að borða og hún sofnuð var mín jafnvel farin að búast við eiginmanninum og strákunum til baka. Við mæðgur létum hugann reika um hverju mætti búast við í kvöldmatinn og þegar okkur fór að lengja biðin fórum við að spjalla um heima og geyma og fara í orðaleiki. Enn bólaði ekkert á matnum né strákunum. Eins og gjarnan gerist við þannig aðstæður fór hugurinn í minni af stað. Sennilega hefðu þeir villst á leiðinni og tafist þess vegna. Hugurinn fantaseraði áfram og nú var löggan búin að stoppa Þorstein fyrir of hraðan akstur, skyldi ekkert upp né niður í þessu íslenska ökuskírteini og tók kallinn því með á stöðina. Enn leið tíminn og þeir búnir að vera í burtu í tvo og hálfan tíma. Þá var ég farin að sjá fyrir mér alvarlegt umferðarslys og orðin verulega hrædd um kallana mína. Ég reyndi og reyndi að ná í þá í farsíma en ekkert gekk. Ég reyndi að þykjast ógurlega svöl svo Una Björg færi ekki að verða hrædd líka en innra með mér var ég orðin mjög óróleg. Klukkan var nú farin að nálgast miðnætti þannig að ég tók þá ákvörðun að við skyldum bara reyna að sofna, við myndum bara vakna þegar maturinn bærist. Við heyrðum af og til í bílum en það var um miðnætti sem við heyrðum rétta bílhljóðið. Hjúkk. Þvílíkur léttir. Ég þyrfti ekki að fara að gera leit að þeim í birtingu eins og ég var farin að óttast. Eftir þriggja klukkustunda bið birtist lúxusmatarbakki með T-bone steik og fínasta meðlæti og rauðvínsglas í tjaldsgættini, Pinot Noir frá vínbónda í Oregon rennur ljúft niður. Allar áhyggjur mínar á bak og burt. Bottomline: Í Ameríku tekur allt langan tíma!!
María
Um bloggið
Living in America
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
En spennandi útilega, gaman að lesa :)
Ágústa (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.