9.8.2007 | 04:43
Ófarir á Íslandi
Fyrir nokkrum dögum fengum við slæmar fréttir frá Íslandi. Jim og Camille hjónin sem við skiptum á húsi og bíl við, urðu strandaglópar á Laugum í Reykjardal þegar bíllinn okkar sendi frá sér svartan reyk og óhljóð og neitaði að fara lengra. Við fréttum af því að lögreglan hefði komið þeim til bjargar og útvegaði þeim bílaleigubíl á Húsavík en þangað voru þau ásamt Angelu dóttur sinni einhverra hluta vegna flutt í sjúkrabíl. Yndislega Ísland. Angela þurfti að fara í flug daginn eftir þannig að þau brunuðu suður og komu henni í flug í tæka tíð.
Nú voru góð ráð dýr einhvern veginn þurfti að útvega bíl því blessuð hjónin voru ný komin til landsins og við algerlega ekki að standa við okkar.
Því má bæta við að húsbóndi heimilisins hafði í byrjun júlímánaðar klessukeyrt bílinn og þegar hjónin lentu á klakanum hafði Jóhannes réttari ný lokið við að gera hann kláran.
Símtal við Hermann bifvélavirkja á Laugum gaf okkur ekki mikla von um að hjónin gætu notað bílinn okkar. Olía á túrbínunni og líklega þarf að senda vélina til Reykjavíkur og gera við hana þar. Þú mátt eiga von á að þetta kosti 400 þúsund hið minnsta, þú ert þá bara heppinn ef það er minna. Þetta hefði getað gerst hvenær sem er." Ég lagði málið í hendurnar á manninum enda ekki um annað að ræða en að gera við skrjóðinn. Opið veski en óvíst hvað fyki mikið úr því..
Áður en dagurinn var á enda voru tveir kostir í stöðunni Jóhannes réttari vissi um gamlan mann sem var að fara að selja bílinn sinn og bauðst til að kanna hvort hann væri til í að leigja hann fyrir lítið. Ég hafði einnig samband við Halla og Gerðu sem eiga tvo bíla og ég falaðist eftir hvort þau mættu sjá af Skódanum í einhver tíma. Þar sem mamma Halla var akkúrat að lenda á Kanarí og bíllinn hennar því ekki í notkun á meðan varð úr að Halli og Gerða lánuðu hjónunum drossíuna. Halli samdi jafnframt um að þau þyrftu ekki að skila bílnum fyrir norðan eins og til stóð og sparaði þeim því auka ferð þangað. Halli og Gerða þið eruð æði. Takk.
Við fengum skeyti frá Jim og Camille þar sem þau lýstu ánægju með dvölina og þökkum til allra sem hafa komið þeim til aðstoðar. Þau eru nú rokin á Vestfirði með Rebeccu dóttur sinni sem ætlar að dvelja með þeim í nokkra daga. Við hittum líka Angelu dóttir þeirra hér í Oregon, hún átti ekki orð yfir íslensku lögregluþjónana en þeir voru í fjóra tíma að dekra við þau.
Ég ræddi við Hermann í síma í dag hann sagði mér að bíllinn væri komin í umboðið á Akureyri og útlitið væri ekki eins slæmt með bílinn og það leit út fyrir í fyrstu. Hvað sem það nú þýðir. Meira af því síðar.
Þorsteinn
Um bloggið
Living in America
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.