11.8.2007 | 06:01
Eins árs
Sponsan okkar á árs afmæli í dag. Við fórum því í gær í þá stærstu leikfangaverslun sem við höfum komið í. Þrátt fyrir að hafa skannað búðina svona tvisvar áttum við í mesta basli með pakkann. Hugrún Gyða var reyndar sjálf mjög spennt fyrir litlum eftirlíkingum (stórum þó) af bílum sem hún gat setið í. Hún notar iðulega sitt sérstaka "brumm"hljóð sem hún myndar í kinnunum þegar hún sér eitthvað á hjólum. Við enduðum því með að velja bílhermi fyrir hennar aldur sem skvísan er bara lukkuleg með.
Deginum vörðum við í eldamennsku og bakstur en við ákváðum að bjóða nokkrum nágrönnum yfir í afmælis"dinner". Hugrún Gyða var reyndar ekki ánægð með dvöl foreldranna í eldhúsinu og lét ófriðlega nema annað okkar sæi um hana. Hún fékk því sitt hefðbundna dekur og fór t.d. með pabba sínum í heita pottinn (sem David nágranni kom og hreinsaði fyrir okkur í gær). Það fannst henni ægilega gaman og æfði sig mikið í dýfunum.
Við enduðum reyndar með allt of mikinn mat og sjáum fram á að borða lambalæri í öll mál næstu vikuna en mikil afföll urðu á eiginmönnum. Ég spurði afgreiðslumann um lambakjöt í búð einni en sá hafði aldrei smakkað lambalæri og hafði ekki hugmynd um hvar svoleiðis fengist. Ég fann þó svoleiðis á endanum og fóru lærin auðvitað í álpappír og á grillið og smökkuðust ágætlega þó amerísk væru. Reyndar stakk nýsjálenska nágrannakona mín upp á að þetta væri sauður. María kokkaði líka kjúkling sem ég hefði keypt til vara sem sló í gegn.
Afmælisbarnið naut athyglinnar og fór á kostum svo fékk hún líka nokkra fína pakka. Við sáum svo sæt föt á hana í gær svo hún var í nýjum fötum með kórónu, alger prinsessa. Hugrún Gyða er orðin býsna duglega að labba og henni finnst gaman að æfa sig. Húsið okkar hér er reyndar ekki besti staðurinn til þess þó við séum búin að girða fyrir alla stiga þá er það svo yfirhlaðið af antikmunum að það er ekki fyndið.og væri það efni í heila bloggfærslu. Við foreldrarnir njótum þess í hvívetna að hafa svona góðan tíma með sponsunni okkar og eigum ekki erfitt með að sjá hverskonar forréttindafólk við erum eða þá hún sem er alltaf í góðu skapi. Í Oregon getur mamman tekið launalaust leyfi í sex vikur en pabbinn í eina. Í nýjasta hefti National Geograpic kemur einmitt fram að Ameríka sé eina landið í heiminum (af þeim sem blaðið athugaði) fyrir utan Ástralíu sem ekki gefa fæðingarorlof á launum.
Nú er afmælisdagurinn á enda og prinsessan litla sofnuð inni í rúmi. Fyrsta árið hennar hefur liðið hratt enda hefur það verið mjög viðburðaríkt, svo margt að sjá, uppgötva, læra og gera. Það er líka ómæld hamingja sem hún hefur fært okkur foreldrunum.
Bless í bili, Þorsteinn og María
Um bloggið
Living in America
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Innilega til hamingju með 1 árs afmælið elsku Hugrún Gyða. Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með ykkur í Ameríku á þessari síðu. Hafi þið það öll sem best. Kv.Guðný
Guðný I. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 11:34
Halló!
Mikið er gaman að lesa um ykkur þarna í Amríkunni!
Til hamingju með fyrsta afmælið hennar Hugrúnar Gyðu!
Kveðjur,
Ingileif.
Ingileif Gisladottir (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.