Fólkið á götunni og hverfandi menning

Næsti áfangastaður okkar í ferðalaginu var borgin Portland í Oregon. Okkar fyrsta verk var að panta okkur gistingu og enn og aftur kom Lonely Planet að góðu gagni. Í  þetta skiptið gekk okkur öllu betur að finna mótelið, sem er vel staðsett nálægt miðbænum - nýuppgert, snyrtilegt og hreint.

Portland stendur við Willamette River, rétt eins og Eugene (þar sem við búum), hún er falleg, nýtískuleg borg. Við áttuðum okkur fljótlega á því að hér væri margt að skoða og ákváðum að dvelja tvær nætur. Við vorum bæði spennt að skoða OMSI (Oregon Museum of Science and Industry) og lögðum okkur því fram um að svæfa Hugrúnu Gyðu áður en haldið var þangað inn. Á safninu eru til sýnis plastaðir líkamar og líkamspartar. Þetta var ótrúleg upplifum og efni í heilan pistil alveg á næstunni. Um kvöldið snæddum við að veitingarstað sem flýtur á Willamette ánni. Við gengum um japanska garðinn en þó hann væri svo sem snotur þá var varla þess virði að greiða aðgangseyri þar, sé fyrir mér að garðurinn sé fallegri á vorin. Í framhaldinu önduðum við að okkur rósailmi í rósagarðinum en Hugrún Gyða er vön að sökkva sé ofan í blóm og í kjölfarið kemur hressandi ahh hljóð, sem vekur stundum kátínu viðstaddra. Í Portland er bókabúð á þremur hæðum sem við þræddum í leit að myndabók um Ísland en við fundum aðeins risastóra bók eftir útlendan

Í mat

höfund. Höfðum hugsað okkur að byrgja okkur upp af gjöfum. Það var átakanlegt að ganga um eldri hluta bæjarins þar sem neyðarhjálp fyrir heimilislaust fólk er til húsa. Þar þræddum við okkur í gengum hóp um 200 manns sem beið þess að staðurinn yrði opnaður, hvarvetna í kring voru bæli undir berum himni sem fólkið hélt til í. Þau eru misjöfn gæðin í þessum heimi.

Frá Portland ókum við austur með Colombia River, með Washington fylki handan árinnar. Við höfðum hugsað okkur að staldra við Multnomah fossa, sem eru næsthæstu fossar Ameríku, um 620 fet, en þar sem Hugrún Gyða svaf afar vært í bílstólnum sínum á þeirri stundu sem við vorum þar, létum við okkur nægja að sjá þá út um bílgluggann á bílastæðinu (roðn... ég veit að svona skoðar maður ekki hlutina.... það er bara heilög stund þegar Hugrún Gyða sefur í bílnum). Við stoppuðum í staðin í bæ sem heitir Hood River, skemmtilegum bæ sem stendur við ármót Hood River og Colombia River. Þar gengum við um götur, versluðum svolítið í kajakbúð bæjarins og fengum okkur dýrindis espresso .

Nú vorum við vel vakandi og tilbúin að fara að Mt. Hood (3.429 m), hæsta fjalli Oregon. Það var búið að benda okkur á að við yrðum að skoða Timberline Lodge, sem er risavaxinn skáli byggður á kreppuárunum 1936-1938. Skálinn er glæsilegur á nútímamælikvarða og er byggingarefnið timbur og grjót úr fjallinu. Skálinn er rekin sem hótel og við vorum heppin þar sem það var laust herbergi og fengum svona last minute díl. Snæddur var Vísundur og fashani á einum flottasta veitingastað sem við höfum farið á hér í landi, Cascade Dining Room í Timberline Logde. Verð þó að segja að ég hefði getað gefið góð ráð varðandi matreiðsluna á fashananum. Í Mt. Hood er skíðað árið um kring og það var hin undarlegasta sjón að sjá skíðafólk spranga um í skíðaskónum á funheitum sumardegi. Okkur var sagt að hingað kæmi fólk hvaðanæva að til að stunda skíðaíþróttina þegar snjólaust er annarsstaðar. Við veltum því fyrir okkur hvar í fjallinu fólkið skíðaði því snjórinn er þannig lagað ekkert svo ýkjamikill að okkar mati. En svo sáum við það, fullt af litlum punktum ofarlega í fjallinu, í snjóskafli sem kannski hefur 100 m á hvern kant! Eftir sundsprett og góðan svefn gengum við um hlíðar fjallsins nokkurn vegin laus við tré (ok sakna Íslands smá) Þarna var ákaflega fallegur gróður en einnig er mikið rof trúlega vegna snjóleysinga

Ókum í framhaldinu í gengum indíánaverndarsvæðið Warm Springs og stoppuðum í bænum. Indíánar hafa ákveðna sjálfstjórn innan verndarsvæðanna og þar eru í gildi sérstök lög. Okkur er t.d. aðeins heimilt að aka um aðalvegi innan svæðisins. Hér í nágrenninu er talað um að þeir komist upp með margt sem hvítir Ameríkanar komast ekki upp með. Ástandið í Warm Springs var ekki til að hrópa húrra fyrir allt mjög ósnyrtilegt, sorphirða í miklum ólestri og haugar af drasli við mörg hús. Stirðnaður hundur lág á hvolfi í göturennunni. Margar spurningar vöknuðu hér. Okkur virtist að fólkið þarna væri ekki til stórræðna. Kannski hefur ríkisstjórninni  tekist fullkomlega ætlunarverk sitt að brjóta niður allan mótþróa frá þessum ættbálkum með því að koma þeim fyrir í litlum hópum og meina þeim að tala móðurmál sitt með þeim afleiðingum að núlifandi kynslóðir eru í fæstum tilvikum talandi upprunalega móðurmálið. Við skoðuðum athyglisvert en sorglega rýrt safn um forna menningu indíana . Ég lík þessum pistli  með lauslegri þýðingu á texta úr safninu um villta uppskeru:  

„Náttúrulegar fæðuauðlindir voru svo ríkulegar og svo vel þekktar að landbúnaður var ónauðsynlegur. Gnægð af rótum, hnetum og fræjum og öðrum plöntum voru uppistaða í næringarríkum matseðli. Í höndum vefarans urðu plöntustönglar af sterklegum og fallegum körfum. Margar rætur og plöntur voru okkur mikilvæg lyf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Bókabúðin sem þið nefnið er væntanlega Powells. Ég ELSKA þá bókabúð. Hún er æðisleg. Finna alltaf eitthvað spennandi þar þegar ég fer þangað. Var einu sinni búin að leita út um alla Norður Ameríku að bókum eftir Romain Gary. Þegar ég fór í Powells í fyrsta sinn fann ég einar tíu bækur eftir hann þar. Magnað. Stoppaði þó stutt þegar ég var þar um daginn því ég var of svöng. Varð að fara og borða.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.9.2007 kl. 05:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Living in America

Höfundur

María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason
María Harðardóttir og Þorsteinn Narfason

Vorum í fæðingarorlofi í Oregon í henni Ameríku í þrjá mánuði en erum nú komin heim.

 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Hvíld
  • Þjónn!
  • Við gömlu brennsluofnana í Dachau
  • Í svefnskala fanganna
  • Dachau

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband